Nýir eigendur að Golfbúðinni

Ein elsta golfverslun landsins hefur skipt um eigendur. Hjónin Harpa Þorleifsdóttir og Gestur Már Sigurðsson keyptu rekstur Golfbúðarinnar í Hafnarfirði nú í haust  af þeim hjónum Sigurgísla Skúlasyni og Kristínu Úlfljótsdóttur.

Golfbúðin Hafnarfirði var stofnuð árið 1995 af þeim Sigurgísla og Kristínu og var búðin fyrstu árin í Kaupfélagshúsinu á Strandgötu en árið 2017 flutti hún í núverandi húsnæði að Dalshrauni 10 sem snýr að Stakkahrauni.

Verslunin er 570 m² að stærð og veitir ekki af enda mikið vöruúrval. Að sögn Gests er fatnaður sífellt stærra hlutfall af sölu verslunarinnar enda er úrvalið gott.

Gestur hefur einnig bætt við sölu á vörum fyrir frisbígolf en mikil sprenging hefur verið í þeirri íþrótt sem er svo nátengt golfíþróttinni. Einnig er að finna mikið úrval af fjarlægðarmælum sem nýtast bæði í hefðbundnu golfi en einnig í frisbígolf.

Í búðinni má finna frábærar jólagjafir fyrir kylfinga og þar á meðal eru ýmiskonar æfingatæki sem hægt er að nota til að halda áfram að bæta sveifluna og púttin í vetur.

Heimasíðu Golfbúðarinnar er að finna á www.golfbudin.is.

Facebook Comments Box