Átt þú atvinnumann framtíðarinnar?

Fyrir nokkrum árum var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með N1 knattspyrnumóti barna á Akureyri en ég á býsna efnilegan frænda sem var að keppa svo ég mætti honum til stuðnings þar sem ég var staddur norðan heiða. Í ljósi þess að ég var ekki að fylgjast með eigin barni hafði ég ágætan tíma til að rölta á milli leikja og fylgjast með. 

Ég hef ávallt heillast mjög af árangri og getu mannsins til að ná markmiðum sínum og verið áhugasamur um áhrifaþætti árangurs í íþróttum og öðrum sviðum lífsins. Því þykir mér gaman að fylgjast með samskiptum leikmanna og þjálfara, liðsheilda og síðast en ekki síst á mótum sem þessum, samskiptum barna og foreldra. Nú hefur ýmislegt verið rætt og ritað um þann vettvang en ég varð fyrir nýrri upplifun á þessu móti sem ég hef ekki séð áður og langar að deila með ykkur. 

Ég sá í fyrsta skipti hóp foreldra sem virðast hafa það sem einlægt markmið að gera börnin sín að atvinnumönnum í knattspyrnu. Það eitt og sér er göfugt markmið í stærstu íþróttagrein heims en það sem vakti athygli mína voru aðferðirnar sem voru notaðar.

Þarna voru foreldrar sem tóku tímann á leikjunum ef dómarinn skyldi klikka, tóku myndbandsupptökur af sínu barni (ekki liðinu) til að sýna umboðsmönnum og útsendurum erlendra liða, sendu barninu sínu fyrirmæli um hvar það ætti að vera á vellinum, hvert það ætti að gefa, hvenær það ætti að skjóta og hvað það hefði ekki gert vel í þessum leik sem það ætti að gera betur í þeim næsta. Þá fylgdi jafnan umræða í foreldrahópnum um vanhæfni þjálfarans, að samspil liðsins væri ekki nógu gott, að menn væru eigingjarnir á boltann, og jafnvel viðræður við þjálfarann um hvað betur mætti fara. Þetta er ekki nýtt vandamál og heldur ekki sér íslenskt ef einhver er að velta því fyrir sér. 

Vandamálið er bara að rannsóknir hafa sýnt að ofangreind hegðun af hálfu foreldra veldur neikvæðu tilfinningalegu álagi (e. negative emotional stress) á börn þeirra. Í fullorðnum má geta þess að neikvætt tilfinningalegt álag hvetur til cortizol framleiðslu sem aftur hefur beina tengingu við hjartasjúkdóma, offitu, áunna sykursýki og fleiri heilsufarsvandamál. En eins og það sé ekki nóg þá hefur neikvætt tilfinningalegt álag dramatísk áhrif á möguleika okkar til að taka góðar ákvarðanir. Því minnkum við líkur okkar eigin barna á að finna liðsfélagana, lesa leikinn og gera sitt besta þegar við stöndum við hliðarlínuna og segjum þeim hvað þau eiga að gera, eða með öðrum orðum, tökum að okkur hlutverk þjálfarans.

Afraksturinn var sá að þarna sá ég nokkur 10 -12 ára börn leika knattspyrnu en líta látlaust til foreldra sinna til að sækja tilfinningalega viðurkenningu eða vanþóknun eftir því hvernig gekk í leiknum. Það sem þau áttu sameiginlegt var að enga gleði var að sjá í augum þeirra eða foreldra þeirra meðan á leiknum stóð, og þar erum við komin að því sem ég saknaði úr augum verðandi atvinnumannanna, leikgleðinnar! 

Staðreyndin er nefnilega sú að gleði er birtingarmynd ástríðu og ástríða hefur hæsta forspárgildi fyrir árangur á öllum sviðum lífsins. Ef þú elskar það sem þú gerir, þá gengur þér betur!

Þar sem ég velti þessu fyrir mér að kvöldi dags rakst ég á býnsa góða grein ritaða af Tim Elmore hjá Growing Leaders þar sem lagðar eru fyrir staðhæfingar og spurningar sem hjálpa foreldrum að styðja við tómstundaiðkun barna sinna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt:

Fyrir leik:

Skemmtu þér vel!
Gerðu þitt besta
Ég elska þig

Eftir leik:

Skemmtir þú þér vel?
Við erum stolt af þér!
Ég elska þig.

Bandarísku þjálfararnir Bruce E. Brown og Rob Miller sem hafa áralanga reynslu af þjálfun íþróttamanna halda því fram að hámarksstuðningur foreldra rúmist í einni setningu: 

Ég elska að horfa á þig spila.

Engin frammistöðudómur, engar leiðbeiningar, engin pressa.

Ef þú vilt að barnið þitt verði hamingjusamur atvinnumaður, hjálpaðu því að sækja virði í sig, ekki út fyrir hliðarlínu.

Höfundur greinarinnar er Gestur K. Pálmason, stjórnendamarkþjálfi 

Facebook Comments Box