Svefn hefur áhrif á árangur í íþróttum
Góður svefn er grunnurinn að því að einstaklingnum líði vel og á sama tíma minnkar hann líkur á allskyns líkamlegum kvillum. Ónægur svefn er einn af orsakavöldum margra af stærstu heilbrigðisvandamálum heimsins í dag. Með því að auka svefn og gæði hans er til dæmis hægt að minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og offitu. Góður svefn ætti einnig að vera eitt aðal verkfærið í vopnabúri íþróttamanna til að stuðla að sem mestri endurheimt milli æfinga og keppni.
Þjálfarar eða stjórnendur íþróttafélaga ættu því að hafa svefntíma íþróttafólksins síns í huga þegar æfingatímar eru skipulagðir. Sérstaklega er varhugavert að skipuleggja æfingar mjög snemma að morgni eða mjög seint að kvöldi. Þegar íþróttamaðurinn þarf að mæta á æfingar á þeim tímum gefur það honum styttri svefntíma yfir nóttina sem eykur á þreytu hans og gerir honum erfiðara fyrir að standa sig á æfingunum.
Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli lítil svefns og frammistöðu, til dæmis að þeir sem eru úthvíldir geta hlaupið lengri vegalengdir en þeir sem sofa illa. Eftir eina nótt af slitróttum svefni verður hjartslátturinn hraðari, súrefnisþörf eykst og mjólkursýra í vöðvum verður meiri við áreynslu en þegar einstaklingurinn er úthvíldur. Áhrif svefnleysis á styrk virðast til að byrja með ekki vera mikil þrátt fyrir mikla syfju eða slappleika, en þeirra fer að gæta eftir þrjá daga. Einstaklingar eiga þá til dæmis erfitt með að ná hámarksþyngdum í lyftingaæfingum sem nota stóra vöðvahópa.
Svefnleysi kemur líka oft niður á skapinu okkar, við verðum eirðarlaus, sýnum slæmar skapsveiflur, fáum hausverk, ranghugmyndir og fleira, en margir þjást af svefnleysi án þess að gera sér almennilega grein fyrir því. Margir eru oft þreyttir seinnipartinn, sofna yfir sjónvarpinu og eiga erfitt með að fara fram úr rúminu á morgnana. Þeir hreinlega átta sig ekki á því hversu mikið lífið væri betra ef þeir svæfu betur og meira.
Ef við sofum vel aukum við hæfileika okkar til að læra, bætum andlega og líkamlega heilsu og gerum okkur klár í þrautir morgundagsins.
Eitt af helstu ráðunum sem fólki er gefið til að ná góðum svefni er að neyta ekki koffíns skömmu fyrir svefn. Ástæða þess er að helmingunartími koffíns er frá þremur til fimm klukkutímum og það er talið vera í líkamanum í allt frá fjórum og upp í 11 klukkustundir.
Áhrif svefns er mikill á árangur í íþróttum og er óhætt að gullyrða að sá íþróttamaður sem hugar vel að svefninum líklegri til þess að bæta sig hraðar og um leið mun ólíklegri til þess að meiðast.