Hvað þarf til að verða framúrskarandi í tækni og taktík?
Allur þjálfunarundirbúningur í íþróttum ætti að innihalda andlega þjálfun, líkamlegt athæfi, tækni og taktík. Í þjálfun ætti alltaf að æfa tækni í upphafi æfingar, eftir upphitun og í lokuðu umhverfi. Þegar einstaklingur hefur náð tökum á hreyfingunni er hægt að auka erfiðleikastig eins og að bæta við leiklíkum aðstæðum.
Tækni í knattspyrnu snýst um alla meðferð á knettinum eins og að rekja, senda, taka á móti, skjóta, skalla og gabbhreyfingar. Allar þessar hreyfingar eru mikilvægar í íþróttinni. Svo dæmi sé tekið er hægt að taka á móti bolta með öllum líkamanum, með höfðinu, bringunni, maganum, lærunum og ristunum og því þarf að æfa allar þessar móttökur.
Aðeins 1,2% – 2,4% af hlaupalengd leikmanna er með bolta í hverjum leik en þrátt fyrir það eru það stundir sem geta skipt sköpum þegar kemur að úrslitum. Miðjumenn hlaupa mest með boltann enda snýst þeirra hlutverk m.a. um að dreifa boltanum um völlinn og tengja saman vörn og sókn.
Þegar kemur að tækni, eins og mörgu öðru, er þjálfun lykilatriði. Talað er um að einstaklingur þurfi að eyða 10 þúsund klukkustundum í ákveðna færni til þess að verða framúrskarandi í henni.
Ef einstaklingur æfir í 3 klukkutíma á dag í 10 ár þá ætti einstaklingur að vera orðin framúrskarandi í færninni.
Til þess að ná þessari færni þarf að æfa utan skipulags æfingatíma og það krefst mikils aga. Tækni er því færni sem þarf að eyða einna mestum tíma í að æfa.
Tækni og taktík í knattspyrnu eru taldir vera ríkjandi þættir í íþróttinni en góð sendingargeta, tíðni vel heppnaðra sendinga, tíðni vel heppnaðra móttaka og meðalfjöldi snertinga á leikmann er yfirleitt hærri meðal farsælla liða heldur en ófarsælla.
Gott er að vinna með ákveðna áætlun eða stefnu fyrir hvern leik. Til þess að geta framkvæmt þessa áætlun þarf að hafa ákveðna taktík.
Taktík getur verið misjöfn eftir leikstöðum þó svo að allir leikmenn vinni að sama markmiði en rétt taktík getur haft mikil áhrif á úrslit leiksins.
Gerð var rannsókn sem skoðaði mismunandi hlutverk á milli leikstaða þegar kom að tækni og taktík. Niðurstöður sýndu fram á að varnarmenn og miðjumenn hreinsuðu mikið boltann burt frá sínum vallarhelming og þeir röktu boltann mest miðað við aðra leikmenn.
Í knattspyrnu er markmið allra liða að koma knettinum í mark andstæðingsins og koma í veg fyrir að andstæðingur skori. Leikvöllurinn er stór og því hafa leikmenn oft frelsið til þess að búa eitthvað til. Til þess þarf að hafa góða tækni og hafa gott auga fyrir leiknum og sjá tækifæri sem birtast.
Hluti af leiknum er að geta hreyft sig rétt bæði með bolta og án bolta. Þannig opnast svæði sem geta þar af leiðandi skapað tækifæri til þess að sigra leikinn.
Greinin er upp úr lokaritgerð Guðrúnar Þórbjargar Sturlaugsdóttur, íþróttafræðing frá Háskólanum í Reykjavík.