Gildi, leiðarvísir í keppni

Hver er ég sem íþróttakona/íþróttamaður?

Hvað einkennir mig á vellinum?

Hvað vil ég að fólk sjái þegar það kemur og horfir á mig keppa?

Svör þín við þessum spurningum ættu að fara langt með að hjálpa þér að skilgreina þín gildi. Gildi eru fá og vel skilgreind karaktereinkenni íþróttamanns/íþróttakonu. Gildi eru einkenni sem ALLTAF eru fullkomlega undir stjórn einstaklingsins að framkvæma og má segja að sé grunnur hans að góðri frammistöðu. Í keppnisaðstæðum þar sem mikið er að gerast og margt að keppast um orku og athygli íþróttafólks er mikilvægt að vita nákvæmlega hvert skal beina athygli sinni og hvað skal verja orku sinni í. Það má líta á gildi sem nokkurs konar akkeri. Þegar lætin eru mikil og þér finnst þú vera að missa hausinn í keppni beinir þú athyglinni að gildunum þínum og þau veita þér stöðugleika á ný. Gildin eru leiðarvísir íþróttafólks í keppni og það sem keppnin á að snúast um.

Skilgreindu þín 2-3 gildi, farðu inn í keppnir með þann fókus að gildin stýri öllu sem þú gerir sama hvað gengur á. Þannig framkvæmir þú þína uppskrift að góðri frammistöðu og hefur gert allt sem í þínu valdi stendur til að niðurstaða keppninnar verði góð.  

Höfundur er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi

Facebook Comments Box