Að temja sér þakklæti
Það eru margar góðar ástæður fyrir því að temja sér þakklátt lífsviðhorf. Raunverulegt þakklæti felur í sér að koma auga á og þakka fyrir hið sjálfsagða, það sem er allt í kringum okkur alltaf og sem við höfum verulega tilhneigingu til að taka sem gefnu. Þetta eru hlutir eins og fallegt sólarlag, maturinn, heilsan, fegurð náttúrunnar, fólkið okkar, góðmennska annarra, lífið sjálft. Þakklæti felur í sér ákveðna auðmýkt gagnvart lífinu.
Þakklæti er upplifun sem hefur bein áhrif á líkamsstarfsemi veitanda þess og þiggjanda. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur síðustu ár rannsakað áhrif þakklætis á fólk, heilsu, hamingju og samskipti. Í bók sinni Thanks! greinir hann frá niðurstöðum þessara rannsókna sinna. Í stuttu máli leiðir þakklæti til betri heilsu, betri svefns, minni streitu, meiri gleði og hamingju, betri samskipta, meiri ákafa, meiri ánægju með lífið, meiri bjartsýni, og meiri ákveðni. Er þá talinn upp aðeins hluti þeirra góðu áhrifa þess að veita þakklætisgaum góðum hlutum í lífinu.
Hvers vegna hefur þakklætið svona jákvæð áhrif á okkur? Fyrir því eru nokkrar ástæður:
1. Þakklæti breytir hugsanagangi okkar.
Ef við viljum breytingar í lífi okkar eru okkur tvær leiðir færar: líf okkar breytist eða við breytumst. Að bíða eftir breytingum er frekar aðgerðarlaus iðja. Þegar við festumst í vandamálum missum við af öllum þeim tækifærum sem bjóðast okkur á hverjum degi, einfaldlega vegna þess að við tökum ekki eftir þeim. Með því að opna augun fyrir þakklæti breytum við því hvernig við hugsum. Það er góð leið að halda þakklætisdagbók og skrifa niður daglega 5 atriði sem dagurinn færði þér og sem þú ert þakklátur fyrir. Hver kom þér til aðstoðar í dag, hvaða tækifæri gáfust og hvernig lagði þessi dagur grunnurinn að betri framtíð?
2. Þakklæti hjálpar okkur að finna lausnir.
Að stunda þakklæti færir okkur frá vandamálinu og nær lausnum. Það kemur okkur úr því að tuða yfir hlutunum og sjá aðeins hindranir og yfir í það að hugsa um bestu niðurstöðuna. Það er svo sannarlega eitthvað sem við þurfum á að halda í lífi og starfi. Góð leið er að halda dagbók og skrifa niður það sem fær mann til að kvarta. Hvað er það hjá þér sem kemur þessum neikvæðu tilfinningum af stað? Skoðaðu þessi atriði vikulega og reyndu að finna lausnir á þeim. Með því að sjá möguleikana í þeim áskorunum sem þú stendur frammi fyrir kemstu nær lausn.
3. Þakklæti er smitandi.
Fæstir fá mikið út úr því að eiga í samskiptum við neikvæða og geðvonda einstaklinga og vilja frekar umgangast uppbyggilegt og jákvætt fólk. Þakklátt fólk er yfirleitt glatt í bragði og hefur góða nærveru. Það smitar út frá sér jákvæðu orku og er góður og skemmtilegur félagi. Mikilvægt er að fylgjast vel með eigin tjáningu og vera meðvitaður um eigin líðan og orðaval. Lítum í eigin barm og skiptum neikvæð orð út fyrir jákvæð.
Þakklæti ber að rækta eins og allt annað. Temjum okkur að koma auga á það sem er þakkarvert og gleðjum þar með okkur sjálf og aðra, öllum til góðs.