Að snúa nánast tapaðri stöðu

Ég man eftir að sitja eitt sinn við eldhúsborðið og ræða við pabba um markmið mín í fótboltanum. Þetta var 2005, ég var 21 árs og var búinn að spila nokkra leiki í 2. deild með Aftureldingu. Ég sagði honum að ég stefndi á að spila í úrvalsdeildinni eftir 3 ár. Markmið sem var mjög metnaðarfullt miðað við þáverandi stöðu mína og jafnvel nokkuð langsótt. Pabba þótti það gott og blessað en hvatti mig til að hugsa lengra. Hoppa yfir Ísland og horfa til Skandinavíu. Jafnvel lengra, eitthvað fáránlega langt. Enska, ítalska eða spænska deildin. Spila á móti þeim bestu, átrúnaðargoðum eins og Buffon. Hann vildi meina að ég ætti að setja markið eins hátt og mögulegt væri, hafa það bakvið eyrað, reyna við það og sjá hvert það tæki mig. Ég var ekki að tengja við það, fannst það alltof langsótt og í raun bara bull. Ég vildi hafa markmiðið innan seilingar og gerlegt. Þannig að ég hélt mig við að komast í íslensku úrvalsdeildina á þremur árum. Það tókst, og reyndar á tveimur árum. Þá tóku við ný markmið. Alltaf eitthvað metnaðarfullt en gerlegt. Komast í landsliðshóp. Verða Íslandsmeistari. Komast í atvinnumennsku osfrv. Allt markmið sem náðust á endanum. Smám saman fóru það sem áður virtust draumkenndar hugmyndir pabba að verða áþreifanlegri.

Að spila á móti þeim bestu, átrúnaðargoðum eins og Buffon.

Við skulum ekki útiloka neitt en það er ekki líklegt að ég muni nokkurn tíma spila á Englandi, Ítalíu eða á Spáni. En mér hefur tekist að snúa nánast tapaðri stöðu yfir í að hafa spilað sem landsliðs- og atvinnumaður í nokkur ár í Noregi, Danmörku og Hollandi. Í sumar naut ég svo þeirra forréttinda að fá að taka þátt í lokakeppni Evrópumótsins með íslenska landsliðinu. Það var hreint ótrúlegur mánuður og magnaðasta upplifun lífs míns. 

Það er persónubundið hvort fólk kýs að velja sér raunhæfari markmið sem eru innan seilingar eða draumkennd markmið sem kannski er langsóttara að ná. En það er allavega á hreinu að markmiðin nást ekki, sama hversu stór þau eru, ef þau eru ekki mótuð og skilgreind í huga manns. Það mikilvægasta er að hafa markmið og vinna markvisst að því að komast þangað sem maður stefnir. Stórt eða lítið, skiptir ekki máli. Bara setja sér markmið, reyna við það af heilum hug og sjá hvert það leiðir mann. 

Markmiðin nást ekki, sama hversu stór þau eru, ef þau eru ekki mótuð og skilgreind í huga manns.

Eftir Evrópumótið fór ég í heimsókn til foreldra minna og við pabbi fengum okkur kaffi við eldhúsborðið. Rúm 10 ár voru liðin frá samtali okkar um markmið, vonir og væntingar í fótboltanum. Og pabbi, svolítið hróðugur á svip, minnti mig á samtalið okkar.  „Þú manst það sem við töluðum um hérna um árið. Um markmiðin sem þér þótti algjört bull. Og hvað gerðist? Var ekki Buffon að spila í sömu 8 liða úrslitum og þú?“

Pistill Hannesar Halldórssonar, landsliðsmarkvarðar birtist fyrst á www.synumkarakter.is

Facebook Comments Box