Hvað er einelti?
Einelti er endurtekið áreiti eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast endurtekið á ákveðinn einstakling. Afleiðingar eineltis gera verið alvarlegar ekki aðeins fyrir þolandann og gerandann, heldur einnig aðra í hópnum, því það eitrar andrúmsloftið og hefur neikvæð áhrif á liðsandann.
Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps. Einelti birtist með ýmsum hætti, t.d. að þolandi verður fyrir stöðugri stríðni á einn eða annan hátt, illu umtali, hann er gerður að aðhlátursefni, honum sýnd vanþóknun, útskúfun og hæðst er að honum með ýmsu móti.
Einelti getur falið í sér að þolandanum finnist að allir eða flestallir í hópnum séu á móti honum, þótt því sé í reynd ekki þannig farið. Ræða þarf við börn og ungmenni um samstöðu og að vera aldrei þögult vitni að stríðni eða einelti. Finnist einhverjum að verið sé að stríða honum eða leggja hann í einelti þarf að taka mark á því og skoða málið. Það er ávallt huglægt mat þolanda sem er mælikvarði á hvað mörkin í samskiptum liggja.
Þjálfarar og annað starfsfólk bera mikla ábyrgð þegar kemur að eineltismálum og samskiptum iðkenda. Allir sem starfa innan íþróttaféalgs, þurfa að geta gert sér grein fyrir því hvort um sé að ræða einelti eða ekki. Mikilvægt er að þjálfarar/starfsfólk hvetji börn og ungmenni til þess að láta foreldra eða þjálfara/starfsfólkið vita, verði þau fyrir endurtekinni stríðni eða ef þau verða vör við stríðni eða deilur milli einstaklinga.