Nokkur atriði sem þú vissir ekki um núvitund
Núvitund er ástand þar sem við höfum athyglina í núinu á opinn og virkan hátt. Núvitund þýðir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær eða ýta þeim burt. Í stað þess að láta lífið líða hjá án þess að lifa því, vöknum við til meðvitundar og upplifum það á virkan hátt.
Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem þú vissir líklega ekki um núvitund:
· Núlíðandi stundir vara að meðaltali í um 3-4 sekúndur
Rannsókn geðlæknisins Daniel Stern sýndi að núlíðandi stundir án truflana vara á bilinu 1-10 sekúndur. Meðaltalið er 3-4 sekúndur.
· Vísindalega skilgreiningin á núvitund snýst um stjórn á athygli og forvitni
Snemma á þessari öld komu sérfræðingar í núvitund saman og settu fram skilgreiningu. Samkvæmt þeim snýst núvitund um stjórn á athygli okkar ásamt forvitni, opnum hug og samþykki.
· Námskeið í núvitund er aðeins byrjunin
Öll námskeið um núvitund skapa þátttakendum vissulega meiri meðvitund, vellíðan og styrk, en eru aðeins vegvísirinn; matseðillinn en ekki aðalrétturinn.
· Fyrsta skrefið í núvitund er að slökkva á sjálfsstýringunni
Hugur okkar er oft meira fjarverandi en á staðnum. Sjálfsstýringin er allsráðandi. Fyrsta skrefið í núvitund er að taka eftir því þegar hugurinn reikar. Því fyrr sem við tökum eftir því þeim mun árangursríkari verðum við í iðkun núvitundar.
· Hugur okkar getur meðtekið 126 upplýsingar á sekúndu
Samt er miklu meira í umhverfinu sem við tökum ekki eftir.
· Rannsóknir á núvitund hafa tuttugufaldast á undanförnum 15 árum
Núvitund er mjög vinsæl í dag í meðferðarstofnunum, skólastofum, á námskeiðum, í stjórnendahópum og í rannsóknum.
· Munur er á núvitund og slökunaraðferðum
Margir nota orðin núvitund og slökun í bland. Tilgangur núvitundar er hins vega ekki slökun heldur að rækta meðvitund og eftirtekt. Fólk ruglar þessu oft saman þar sem algengur fylgifiskur núvitundar er slökun.
· Ein af ástæðum vinsældar núvitundar er minni sjálfsvitund
Í núvitund fylgjumst við með hugsunum okkar og tilfinningum og lítum á þær sem tímabundna atburði í lífi okkar en ekki staðreyndir eða sannleik um okkur. Þær eru bara það sem þær eru, hugsanir og tilfinningar og við erum þögult vitni, án þess að taka afstöðu eða dæma þær.
· Núvitund finnst í öllum stærstu trúarbrögðum heims
Þó að núvitund eigi uppruna sinn í búddism er hana líka að finna í kristni, Íslam og mörgum öðrum trúarbrögðum.
· Enginn er sérfræðingur í núvitund
Um leið og maður segist vera sérfræðingur í einhverju hættir maður að rannsaka og þá dregur úr forvitni. Um leið og opni hugurinn og forvitnin byrja að dvína minnkar einnig núvitundin. Best er að líta á núvitund sem ferðalag en ekki áfangastað.
Að iðka núvitund færir okkur mikilvægan ávinning. Núvitund minnkar streitu, styrkir ónæmiskerfið, dregur úr þrálátum verkjum, lækkar blóðþrýsting og hjálpar í baráttunni við krabbamein auk þess sem hún dregur úr hættu á hjartasjúkdómum. Fólk sem stundar núvitund er hamingjusamara, á auðveldara með að setja sig í spor annarra, hefur meiri sjálfsvirðingu og á auðveldara með að sætta sig við eigin ókosti. Það upplifir neikvæða endurgjöf ekki sem ógn og á auðveldara með að aðlagast nýjum aðstæðum.
Hægt er að vera í núvitund á hvaða stundu sem er með því að veita því sem er að gerast hér og nú athygli. Hugsaðu um þig sem eilíft, þögult vitni, og taktu eftir augnablikinu. Hvað heyrirðu? Hvað sérðu? Hvaða lykt finnurðu? Það skiptir ekki máli hvernig tilfinningin er – þægileg eða óþægileg, slæm eða góð – þú skoðar hana einfaldlega af því að þetta snýst um núið.