Markmið fyrir golfhring – rétt kylfuval í innáhöggi

Ég mun ávallt nota nægilega langt járn í innáhöggum til að ná auðveldlega að flagginu.

Ef þú lítur til baka og ferð yfir seinustu hringi sem þú spilaðir, skoðaðu þá hversu oft innáhöggið var of stutt, of langt, eða rétt lengd (miðað við holuna). Líkurnar eru býsna miklar að þú sért mun oftar of stutt(ur) í innáhöggi heldur en hitt. Ef þú ert eins og flestir kylfingar þá slærðu í 70-90% tilvika of stutt í innáhöggi (miðað við holustaðsetninguna). Vissulega eru tilvik þar sem skynsamlegra er að vera fyrir framan pinnann í innáhöggi, sérstaklega ef flötin hallar mikið eða miklar hættur eru fyrir aftan flötina. Það er eðlilegt að u.þ.b. 30% innáhögga séu of stutt miðað við flaggið, ekki 80%.

Góð regla, sem lækkar án efa skorið, er að taka járn sem er númeri lægra, en það sem fyrst kom upp í hugann. Okkur hættir nefnilega til að ofmeta högglengdina og/eða vanmeta fjarlægðina.

Ástæður of stuttra innáhögga eru nokkrar: s.s. gæði höggana (við hittum boltann ekki alltaf fullkomnlega); rangt mat á fjarlægð („Þarna er 100 metra hællinn, ég er þá  ca. 105 metra frá, best að taka fleygjárnið“, en e.t.v. var höggið í raun 130 metrar, þ.e. 115 metrar að flöt og svo gleymdist að bæta við vegalengdinni að flagginu, sem var 15 metra inná, þannig að 8-járn eða 7-járn hefði líklega hentað betur. Enn önnur ástæða, sem er sálræn meira en allt annað, er sú að okkur hættir til að horfa á skotmarkið sem endapunkt, og því reynist oft erfiðara að ná alla leið að því en ella. Þetta kannast margir einnig við í löngum púttum, sem gjarnan enda of stutt. Reyndu að sjá fyrir þér holuna lengra frá en hún er, sérstaklega í löngum púttum og lengri innáhöggum.

Einnig skiptir miklu máli að þekkja högglengdina með sem flestum kylfum. Það eru nokkrar leiðir til að mæla högglengdina. T.d. að er hægt, á lygnum degi, að fara á opið grassvæði, slá 10 bolta með annari hverri kylfu í pokanum (eða öllum) og mæla högglengdina á þeim höggum sem heppnast þolanlega. Þetta er ekki ákjósanlegasta leiðin því margir vankantar eru á henni, s.s. fáir lygnir dagar, fá opin grassvæði í boði, nauðsynlegt að hafa aðstoðarmann sem sér hvar boltarnir lenda, auk þess að þetta er tímafrekt.

Önnur leið, sem er betri, er að nota lengdarmælingar á vellinum, þ.e. 100 og 150 m hælana, sem sýna lengdir að flöt, og áætla síðan lengdina að holu. Þegar högg heppnast vel og lendir inn á flöt á að vera einfalt að mæla hversu langt höggið var með því að bæta við lengd frá fremri brún flatar, að holufari boltans. Síðan eru gott að skrá þær upplýsingar á sérstakt blað eða í bók, þ.e. högglengd þar sem boltinn lenti, hvaða kylfa var notuð, hvernig aðstæður voru, t.a.m. vindátt og hitastig, en boltinn flýgur styttra þegar kalt er í veðri.

Auðveldasta og nákvæmasta leiðin til að mæla fjarlægð er að nota fjarlægðakíkja, sem njóta sívaxandi vinsælda, og eru löglegir í  flestum mótum. Þannig er hægt, á fljótlegan hátt, að fá nákvæmar upplýsingar um vegalengd að flaggi, eða öðrum skotmörkum. Fluglengd höggsins er síðan mæld nákvæmlega út frá boltafarinu, og þannig bætt við metrum eða dregið frá vegalengdinni í flaggið. Helsti galli við þessa aðferð er sá að fjarlægðakíkjar eru býsna dýrir, en ef pyngjan leyfir, þá er vel þess virði að fjárfesta í einum slíkum. Mikilvægt er að kylfingar sem fá sér fjarlægðakíkir, æfi sig að nota hann á æfingasvæðinu og miða á flögg, áður en farið er út á völl. Mín reynsla er sú að fjarlægðarkíkirinn flýtir fyrir leik, því hann styttir tímann í ákvörðunartöku um kylfuval, og óþarfi verður að giska hversu langt er í skotmarkið. Þó hef ég heyrt sögur af kylfingum sem eyða allt of miklum tíma í að ná upplýsingum úr kíkinum, þeir ættu því að æfa sig betur að nota hann milli golfhringja. Einungis á að taka nokkrar sekúndur að fá upplýsingar um rétta fjarlægð.

Gefðu þér tíma á næstu golfhringjum til að afla þér upplýsinga um högglengdina, en fylgdu samt sem áður þeirri reglu, að ef fyrsta hugboð þitt er að taka 7-járn í innáhöggið, taktu þá 6-járn og sveiflaðu kylfunni í góðu jafnvægi, án átaka. Eflaust hittir þú boltann betur og nærð fleiri höggum inná flöt í fuglafæri.

Með bestu kveðjum og von um gott gengi á golfvellinum.
Úlfar Jónsson

Facebook Comments Box