Hvernig finn ég hámarkspúlsinn minn?
Hámarkspúls er sú hámarkshjartsláttartíðni hjartans á ákveðinni tímaeiningu og er oft miðuð við fjölda slaga á mínútu (HR mín). Hjartað getur því ekki slegið hraðar en það gerir við þessa háu ákefð. Hámarkspúls er mismunandi eftir einstaklingum. Það sem vegur einna þyngst er aldurinn. Sá sem er eldri hefur venjulega lægri hámarkspúls en sá sem yngri er. Eftir tvítugt lækkar hámarkspúlsinn með árunum.
Hámarkspúls breytist ekki með þjálfun heldur er alltaf sá sami hvort sem einstaklingurinn er í góðri þjálfun eður ei (Janssen, 1995). Til eru nokkrar aðferðir við að finna hámarkspúls einstaklings. Hægt er að nota jöfnur til að reikna út hámarkspúlsinn eða að nota púlsmæla til að mæla hann. Einnig er hægt að telja púlsinn með fingrunum. Jöfnurnar eru mis nákvæmar og gefa misjafna mynd af raunverulegum hámarks púls. Aðferðin 208-0,7 x aldur er af mörgum talin öruggari en 220-aldur aðferðin og eru skekkjumörk ekki talin eins mikil. Með þessari aðferð verður hámarkspúls mannesku sem er 20 ára 194 slög í stað þess að vera 200 með 220-aldur aðferðinni. Samt sem áður eru báðar aðferðirnar ekki nægilega öruggar og best væri að mæla hámarkspúls viðkomandi með púlsklukku.
Aðrar aðferðir sem ekki styðjast við útreikninga miðast við að notast við púlsklukkur eða talningu slaga á 10 eða 15 sekúndna bili eftir hámarks áreynslu. Þannig eru hámarks slög á mínútu fundin. Algengt er að finna hámarkspúls með því að hlaupa upp í móti annað hvort úti eða inni á bretti. Hægt er að hlaupa á bretti á ákveðnum hraða t.d 12 km/klst. Eftir tvær mínútur er síðan hallinn á brettinu aukinn um 2 gráður. Þetta er síðan gert á tveggja mínútna fresti eða þangað til að viðkomandi getur ekki meira og gefst upp. Lesið er á púlsmælinn um leið og gefist er upp til að sjá hámarks hjartsláttartíðnina. Próf sem þessi ætti að endurtaka 2-3 sinnum með nokkra daga millibili. Það eykur öryggi mælinganna.