Markmið fyrir golfhring – að halda sér í nútíð
Að þessu sinni fjalla ég um mikilvægi þess að halda sér í nútíðinni á golfvellinum. Settu þér þetta markmið þegar þú leikur golf.
Ég held mér ávallt í nútíðinni.
Þetta er eitt það erfiðasta sem kylfingar glíma við, og  atvinnukylfingar eru ekki undanskildir. Ef okkur gengur vel, þá förum  við oft að hugsa um hversu mikið við munum lækka forgjöfina með sama  áframhaldi. Að sama skapi, þegar illa gengur, þá finnum við fyrir  streitu því viljum ekki láta sjást á golf.is eða hjá golffélögunum að  skorið hafi farið uppí 100 högg. Hefurðu einhvern tímann slegið slæmt  teighögg og verið enn að hugsa um það á næsta teig á eftir í næsta  teighöggi? Þá ertu ekki að leika í nútíðinni, heldur í fortíðinni. Hefur  þú slegið innáhögg sem endar í glompu við flötina og fengið  kvíðatilfinningu yfir því sem framundan er? Þá ertu ekki í nútíðinni  heldur framtíðinni.
Besta leiðin til að vinna bug á þessu og halda  sér í nútíðinni er að hugsa eitt högg í einu og reyna að gleyma  heildarskorinu. Algengt er að kylfingar leiki sitt besta golf í  holukeppni.  Hvers vegna? Í holukeppni er hver hola leikin fyrir sig, en  heildarskorið skiptir ekki máli. Kylfingar upplifa því meira “frelsi” í  holukeppni og leika afslappaðra og betra golf. 
En hvernig náum við  þessu hugarfari að halda okkur í nútíðinni? Ein gagnlegasta leiðin er að  að halda sér við vanaferlið fyrir hvert högg. Einnig, með því að hugsa  ekki um afleiðingar ef eitthvað högg skyldi mistakast. Ef þú hefur ekki  slegið höggið, þá hefur það ekki mistekist. Einblíndu á að sjá fyrir þér  gott högg í huganum áður en þú slærð. Þetta krefst þjálfunar og er  jafnvel mikilvægara en að standa á æfingasvæðinu og reyna sífellt að  fullkomna sveifluna. Okkur hættir til að setja of miklar tilfinningar í  slæmu höggin, en of litlar í góðu höggin, taka þeim sem sjálfsögðum  hlut. Ef við sláum slæmt teighögg þá hugsum við gjarnan allan  göngutúrinn að boltanum (og jafnvel mikið lengur) hvað við gerðum rangt í  sveiflunni, segjum jafnvel við sjálf okkur að við getum ekki látið  sjást til okkar á vellinum ef þetta heldur svona áfram. Besta leiðin til  að minnka steitu sem slæm högg valda er að hugsa ekki frekar um þau,  heldur gleyma högginu og halda áfram. Ekki tengja tilfinningar og  minningar við slæm högg. Sumir golf-sálfræðingar vilja jafnvel ekki  tengja tilfinningar við góð högg. Þessu er ég þó ósammála, því við  verðum að fá að gleðjast yfir og njóta góðu höggana, við erum jú í golfi  vegna góðu stundanna ( en umberum þær slæmu). Fagnaðu góðu höggunum  innilega, fagnaðu góðum púttum með góðu loft-hnefahöggi og “yes-i”!
Til að halda sér í nútíðinni og gleyma skorinu getur jafnvel verið gott að dreifa huganum milli högga með því að spjalla við meðspilarana, taka eftir einhverju skemmtilegu í náttúrunni, hugsa um góða bíómynd eða bók, raula eða blístra rólegt og gott lag, eða eitthvað sem tekur hugann frá golfinu. Þegar þú ert 20-30 metra frá boltanum skaltu hinsvegar “kveikja” á golfeinbeitingunni og fara að huga að högginu sem er framundan og afla þér upplýsinga fyrir það, s.s. fjarlægð, vindátt osfrv.
Með bestu kveðju,
Úlfar Jónsson






 
						 
						