Covid-19 kennir naktri konu að spinna
Covid-19 er óværa sem er að setja líf okkar úr skorðum á hátt sem við höfum ekki upplifað áður. Faraldurinn hefur valdið kvíða hjá mörgum í samfélaginu, fólk er að missa vinnuna, hann hefur tekið af okkur skemmtanir og íþróttakappleiki tímabundið og hann hefur knúið mörg okkar til að vinna, stunda nám og hreinlega lifa á annan hátt en við höfum vanið okkur á og þótt þægilegt. Ýmislegt við Covid-19 er óhugnanlegt og það er skiljanlegt að fólk sé óttaslegið. Í áföllum sem þessum er hins vegar mikilvægt að muna að í þeim liggja tækifæri sem geta leitt af sér stórkostlegar framfarir, tækifæri sem ekki eru til staðar í þægilega og sjálfvirka hversdagsleikanum. Það hvort við notfærum okkur þessi tækifæri og látum óværuna Covid-19 hafa eitthvað gott í för með sér er undir okkur komið. Hugarfar okkar og það hvernig við mætum þeim áskorunum sem veiran hefur gefið okkur sker úr um það hvort veiran leiði að lokum eitthvað gott af sér.
Óþæginlega svæði framfara
Framfarir, hvort sem við erum að tala um persónulegar framfarir í íþróttum eða framfarir í samfélaginu, eiga sér alltaf stað fyrir utan þægindahringinn okkar. Framfarir verða þegar við tökumst á við verkefni sem eru örlítið fyrir ofan okkar getustig, verkefni sem reyna virkilega á okkur og mistakast jafnvel í fyrstu tilraunum. Með endurtekningum, lærdómi og þrautseigju hífa þessi verkefni okkur upp á næsta getustig. Framfarir verða aldrei innan þægindahringsins í verkefnum sem við erum örugg í og okkur finnst þægilegt að leysa. Covid-19 hefur sparkað samfélaginu útfyrir sinn þægindahring. Faraldurinn hefur knúið okkur til að reyna nýjar leiðir til að vinna vinnuna okkar, nýjar leiðir til náms, nýjar leiðir til samskipta og nýjar leiðir til verja tíma okkar. Hugarfar okkar til þessa verkefnis skilur á milli þess hvort við stækkum, eflumst og verðum árangursíkara samfélag í kjölfar Covid-19 eða hvort við föllum til baka inn í gamlan þægindahring án framfara.
Tími fyrir opinn hug og hugrekki
Við stöndum nú fyrir utan okkar þægindahring, við erum að takast á við erfitt verkefni sem knýr okkur til að prófa nýja hluti. Það er mikilvægt að við tökum þessari áskorun með opnum hug og hugrekki, leyfum okkur að hugsa útfyrir boxið og einbeita okkur að því hvað við getum gert frekar en að horfa aðgerðarlaus til gamla þægindahringsins og velta okkur upp úr öllum hlutunum sem við getum ekki gert í núverandi ástandi. Ef við tileinkum okkur það hugarfar að vera opin fyrir áskoruninni og takast á við hana saman, frekar en að hörfa undan henni undir sæng, getur Covid-19 mögulega opnað augu okkar fyrir betri og árangursríkari leiðum til að vinna vinnuna okkar, kenna unga fólkinu okkar og lifa lífinu. Því eins og gamla máltækið segir „Neyðin kennir naktri konu að spinna“.
Höfundur er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi á Haus.is