Inntaka næringarefna hjá íþróttafólki

Fyrst af öllu verða íþróttamenn í fremstu röð að tryggja það að nægilegrar orku sé neytt á degi hverjum. Í raun er engin staðföst regla eða töfralausn sem segir til um neysluna þar sem orkuþörfin er mismunandi milli leikmanna. Fyrir íþróttafólk er mikilvægt að borða “rétt“ og huga sérstaklega að kolvetnaneyslunni. Afreksmenn í íþróttum stunda erfiðar æfingar daglega og því þarf að huga að glýkógenbirgðum líkamans. Við mikla áreynslu minnka þessar birgðir og því er mikilvægt að hlaða þær aftur upp innan 24 klukkustunda svo að hámarksárangur náist.

Með glýkógenhleðslu getur líkami íþróttamanns verið undirbúinn undir erfiðan leik eða æfingatörn. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á sænska knattspyrnuliðinu Malmö FF þegar liðið var í undirbúningi fyrir leik í evrópukeppni kom ýmislegt fróðlegt í ljós gagnvart glýkógenbirgðum leikmanna. Þeir léku deildarleik á sunnudegi og eftir hann voru glýkógenbirgðir leikmanna um 25% af hámarki þeirra að meðaltali. Þar sem mataræði leikmanna þótti ekki nógu gott var framkvæmd mæling á þriðjudegi eða einum degi fyrir evrópuleikinn. Í ljós kom að að glýgógenbirðir leikmanna voru ekki nema 39% af hámarksbirgðum þeirra og því 45var líkami þeirra vart tilbúinn í erfiðan Evrópuleik.

Þetta dæmi segir okkur svart á hvítu að rífleg kolvetnaneysla er mjög mikilvæg knattspyrnumönnum. Síðasta máltíð fyrir leik hjá knattspyrnumanni skal vera rík af vökva og fasta fæðan á að vera auðmelt. Gott er að miða við að máltíðin gefi á bilinu 300 –800 hitaeiningar og eiga þær fyrst og fremst að koma úr kolvetnaríkum mat sem leikmaðurinn kannast við og veit að hann þolir vel. Mikilvægt er að hafa hæfilegur tími líði á milli máltíðar og keppni svo að öruggt sé að allur matur hafi yfirgefið magann fyrir áætlaðan kappleik. Því ella geta meltingartruflanir gert vart við sig og haft neikvæð áhrif á frammistöðu.

Mikilvægt er að neyta kolvetnaríkra afurða sem fyrst eftir lok mikilla og langvarandi líkamlegra átakatil að fylla glýkógenbirgðir. Þar sem svengdartilfinning gerir sjaldan vart við sig stuttu eftir átök eru kolvetnaríkir drykkir, svo sem ávaxtasafar eða íþróttahleðsludrykkir, hentugur kostur.

Höfundur greinar er Guðjón Örn Jóhannsson

Facebook Comments Box