Meiðsli og meiðslaforvörn
Einn af þeim fjölmörgu hlutum sem felast í því að ná árangri í íþróttum er að forðast erfið meiðsli eins og mögulegt er. Margir efnilegir íþróttamenn hafa orðið fyrir meiðslum sem hafa bundið enda á drauma þeirra og tækifæri. Það er margt sem getur spilað inn í þegar ástæður meiðslanna eru krufnar. Meiðslin geta hreinlega orsakast af slysum og við því er ekkert að segja og lítið hægt að gera til að koma í veg fyrir þau. En svo eru meiðsli sem orsakast vegna lélegrar þjálfunar, of mikillar, of lítillar eða hreinlega rangrar þjálfunar. Það eru meiðsli sem auðveldlega er hægt að koma í veg fyrir með aukinni kunnáttu og fagmennsku. Það eru margir aðrir áhrifaþættir sem geta komið til varðandi meiðsli. Stress, reglur leiksins, dómgæsla, þjálfarinn, álag, vellirnir, skórnir, legghlífar, veðrið, líkamsbyggingin og lífstíllinn eru allt þættir sem geta haft áhrif á meiðsli íþróttafólks.
Eins og gefur að skilja verða öll helstu meiðsli knattspyrnufólks á fótum. Liðbandatognanir í ökklum, lið- og krossbandameiðsl í hnjám, liðþófameiðsl í hnjám, vöðvatognanir í lærum og kálfum, hásinameiðsli og nárameiðsli eru algengustu meiðslin. Árni Árnason og fleiri rannsökuðu helstu ástæður fyrir meiðslum íslenskra knattspyrnumanna árið 2008. Í þeirri rannsókn kom fram að hækkandi aldur og fyrri meiðslasaga séu stór áhættuþáttur hvað varðar meiðsli knattspyrnumanna.
Nú á allra síðustu árum hefur verið unnið mikið starf á vegum alþjóða knattspyrnusambandsins til þess að vinna gegn meiðslum knattspyrnufólks. Fagteymi skipuð sjúkraþjálfurum og læknum hafa rannsakað meiðslin og sett saman æfingaáætlanir með meiðslaforvarnaæfingum og gefið formlega út. Núna nýlega kom út endurbætt útgáfa af þessum æfingum frá FIFA en það er upphitunaræfingaáætlun sem þeir kalla 11+. Þessi æfingar er hægt að innleiða í staðinn fyrir hinar venjubundnu upphitunaræfingar með það að markmiði að vinna markvisst gegn algengustu meiðslum í knattspyrnunni. Rannsóknir hafa sýnt að 11+ æfingarnar geta dregið verulega úr meiðslum ef að þær eru framkvæmdar á réttan hátt og framkvæmdar reglulega.
Í rannsókn þar sem reynt var á þessa æfingaáætlun kombersýnilega í ljós jákvæður árangur þess. 1892 einstaklingar voru valdir í rannsóknina og skipt í tvo hópa. Annars vegar rannsóknarhópurinn sem taldi 1055 manns og síðan samanburðarhópurinn sem taldi 837 manns. Ástæðan fyrir þessum mun á fjölda er vegna þess að það var fyrirfram ákveðið hvaða lið myndu tilheyra hvorum hóp. Rannsóknarhópurinn var látinn gera þessar tilteknu upphitunaræfingar á hverri æfingu á meðan hinn hópurinn framkvæmdi sínar hefðbundnu upphitun. Síðan var fylgst með einstaklingunum yfir heilt keppnistímabil. Í heild voru skráð 264 meiðsl hjá þessum 1892 einstaklingum. Þar af voru 121 meiðsl í rannsóknarhópnum en 143 í samanburðarhópnum. Af fjöldanum einum að dæma virðist ekki vera mikil munur en þegar við skoðum þetta hlutfallslega þá meiðast 11.5% af rannsóknarhópnum en 17% af samanburðarhópnum.
Leikmenn koma til með að hafa marga mismunandi þjálfara á ferli sínum. Suma sem sinna þessum þætti vel og aðra sem sinna honum ekki neitt. Það er því mikilvægt fyrir verðandi afreksmenn í knatttspyrnu að kynna sér þessa þætti vel og tileinka sér forvarnaræfingar. Það gæti bæði gefið lengri og farsælli feril.