Fimm ástæður fyrir því að íþróttafólk þarf sterkan haus

Allir vita að til að ná árangri í íþróttum þarf bæði líkamlega og tæknilega getu. Þetta er geta sem íþróttafólk er að vinna í að bæta og viðhalda á hverjum einasta degi til að hoppa hærra, geta hlaupið lengra, til að geta tekið á móti boltanum og sent hann frá sér betur, eða til að geta slegið golfboltann vel og synt sem hraðast. Íþróttafólk þarf líka að búa yfir andlegri getu, sterkum haus.

Hér eru fimm ástæður fyrir því að íþróttafólk þarf sterkan haus.

  • Að ná langt í íþróttum krefst vinnu, vinnu sem er sjaldnast auðveld eða þæginleg og stundum ekki skemmtileg. Til að geta gert óþæginlegu, leiðinlegu og sársaukafullu æfingarnar sem þarf að gera aftur og aftur og aftur til að ná árangri, þegar aðrir þæginlegri og skemmtilegri valkostir standa til boða, þarf íþróttafólk sterkan haus.
  • Mistök geta verið dýrkeypt í íþróttum og þess vegna er margt íþróttafólk sem óttast mistök. Þegar íþróttafólk er hrætt við að gera mistök heldur það gjarnan aftur af sér, það þorir ekki að gera hluti sem það hefur áður sýnt að það getur gert. Sterkur haus gerir íþróttafólki kleift að sigrast á óttanum við mistök og blómstra í keppnisaðstæðum með kjark og þor að vopni.
  • Sterkur haus gerir íþróttafólki kleift að ná yfirvegun og einbeitingu í stressandi aðstæðum þar sem öllu máli skiptir að sýna yfirvegun og einbeitingu. Dæmi um slíkar aðstæður eru að pútta fyrir sigri á 18. holu, að taka mikilvægt vítaskot í körfubolta undir lok leiks og að taka víti í vítakeppni í fótbolta.
  • Sterkur haus er það sem kemur íþróttafólki áfram þegar það er orðið gríðarlega þreytt í íþróttakeppni og hausinn er farinn að öskra á viðkomandi að hann eigi að hætta. Það að geta hlaupið uppbótartíma í fótbolta á fullu þrátt fyrir allt að því sársaukafulla þreytu getur skilið á milli sigurs og ósigurs. Að vera sterkur langhlaupari snýst einnig að stórum hluta um það að geta hlaupið síðustu kílómetrana í hlaupi þrátt fyrir mikla þreytu.
  • Áskoranir og mótlæti eru órjúfanlegur hluti af íþróttum. Íþróttafólk meiðist, íþróttafólk tapar, íþróttafólk lendir undir í keppnum og íþróttafólk er ekki valið í lið. Áskoranir og mótlæti geta verið gríðarlegt lærdómstækifæri og gert það íþróttafólk öflugra sem tekst á við mótlætið en hörfar ekki undan því. Sterkur haus er lykillinn að því að takast á við mótlæti á árangursríkan hátt.

Höfundur greinar er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi hjá Haus.is

Facebook Comments Box