Þekkingaryfirfærsla mikilvæg í afreksþjálfun

Í íþróttaheiminum hafa reyndir og reynslumiklir íþróttamenn, í mörgum tilfellum atvinnumenn sinna íþróttagreina, tekið að sér hlutverki mentors og leiðbeinanda fyrir yngri, óreyndari iðkendur sem eru að stíga sín fyrstu skref á erlendum sem og innlendum keppnisvettvangi.

Í aðstæðum sem slíkum aðstoða mentorar með ráðgjöf, kenna á ríkjandi gildi og viðhorf, leiðbeina með faglegri framkomu og kenna siðferðisleg álitamál. Það getu reynst lykilatriði fyrir unga, efnilega íþróttamenn að hafa reynslumikla íþróttamenn og fyrirmyndir, sem búa yfir leyndri þekkingu íþróttaheimsins, að leita til þegar unnið er að markmiðum og draumum.

Dr. Viðar Halldórsson telur að árangur íslenskra afreksíþróttamanna megi m.a. tengja við að hér á landi ríki ákveðin íþróttamenning sem börn og unglingar tileinki sér ung að árum þegar þau byrja í skipulögðu íþróttastarfi. Börn og unglingar eru uppalin við félagslegar meginreglur íþrótta og læra ákveðnar menningarlegar hefðir að taka þátt í íþróttum. Íslenska samfélagið í heild sinni hefur mótað þá hugsun sem almenningur hefur gagnvart íþróttum. Einnig má leiða líkum að árangur íslenskra íþróttamanna af báðum kynjum megi rekja til þess að hér á landi er stutt við bæði kynin í íþróttaiðkun.

Árangur íslenskra afreksíþróttamanna í hóp- og einstaklingsíþróttum er einstakur og ekki má lengur líta á hann sem heppni eða einstök atvik. Samanborið við aðrar smáþjóðir Evrópu með höfðatölu undir einni milljón, má sjá samkvæmni í frammistöðu og árangri íslenskra landsliða undanfarin ár. En árangur og frammistaða íslenskra íþróttamanna er ekki einungis eftirtektarverður vegna höfðatölu þjóðarinnar, heldur einnig að framúrskarandi árangur í mörgum íþróttagreinum hefur verið að nást á tiltölulega svipuðum tíma.

Samkvæmt rannsóknum má sjá að þátttaka einstaklinga í skipulögðu íþróttastarfi leiði til hvatningar til menntunar og þekkingarmiðlunar, efli innri hvatningu og sjálfsöryggi og hafi forvarnargildi fyrir börn og unglinga. Samfélög sem leggja meiri áherslu á menntun og miðlun þekkingar í íþróttahreyfingunni, fyrir alla þá sem koma íþróttahreyfingunni við á einhvern hátt, m.a. foreldrar, iðkendur, þjálfarar, eru líklegri til þess að ná alþjóðlegum árangri á sviði afreksíþrótta.

Facebook Comments Box