Þrjár leiðir að jákvæðara viðhorfi

Viðhorf okkar ræður því hvernig við lítum á heiminn. Þegar við veljum að finnast rigning leiðinleg upplifum við slæman dag þegar það rignir. Sumir sjá alltaf sólina í gegnum skýin á meðan aðrir sjá dökku hliðarnar á þessu eina skýi á himninum. Flestir eru kannski einhvers staðar mitt á milli. Hér fyrir neðan eru þrjár leiðir sem geta gagnast við að þróa með sér jákvæðara viðhorf:

Hættu að bera þig saman við aðra

Við höfum mörg tilhneigingu til að bera okkur saman við aðra. Slíkur félagslegur samanburður hefur oft þær afleiðingar að við verðum pirruð eða of upptekin af okkur sjálfum. Þetta á sérstaklega við þegar samanburðurinn er neikvæður þ.e.a.s. þegar við berum hæfileika annarra saman við eigin veikleika eða þegar við berum glansmynd af lífi annarra á Facebook saman við hversdaginn hjá okkur sjálfum. Þessi ójafni samanburður hefur neikvæð áhrif á sjálfsmyndina og líðan okkar. Við græðum ekkert á því að vera okkur saman við aðra á þáttum sem við eigum sjálf erfitt með en sem þeir skara fram úr í. Mundu að enginn er fullkominn og að það skiptast á skin og skúrir hjá flestum. Verum sátt með okkar.

Samfagnaðu velgengni annarra

Stundum fyllumst við öfund þegar einhver annar nær árangri. Þá er eins og okkur finnist afrek viðkomandi standa í vegi fyrir að við getum sjálf náð að afreka. Öfund hefur neikvæð áhrif á eigin heilsu, sjálfsvirðingu og hamingju. Hér eru nokkur góð ráð til að beita næst þegar öfund gerir vart við sig:

  • Veittu því athygli sem viðkomandi lagði á sig til að ná árangri. Afrek gerast ekki af sjálfu sér, maður þarf að leggja eitthvað á sig til að afreka.
  • Minntu þig á að árangur einhvers annars tengist ekki þínum árangri og dregur ekki úr líkum þess að þú njótir velgengni.
  • Finndu fyrir stolti, aðdáun og hamingju fyrir hönd viðkomandi. Óskaðu honum/hennar einlæglega til hamingju. Að samgleðjast öðrum er frelsandi tilfinning. Þú munt fyllast innblæstri til að ná árangri sjálf(ur).

Breyttu vanþakklátum hugsunum

Öll upplifum við vanþakklæti annað slagið. Slíkar hugsanir færa okkur tækifæri til að þróa með okkur þakklátt viðhorf. Taktu eftir því næst þegar vanþakklæti gerir vart við sig og skrifaðu hugsunina niður í smáatriðum þannig að þú náir kjarna hennar. Snúðu síðan hugsuninni við og veltu fyrir þér hvað þú getur verið þakklát(ur) fyrir í staðinn fyrir hvað þú gætir verið að kvarta yfir. Skrifaðu þakklætishugsunina niður einnig. Ef maki þinn gleymdi t.d. að gera eitthvað sem þú baðst hann um og skiptir þig verulegu máli, hugsaðu þá um hversu þakklát(ur) þú getur verið að vera í góðu og heilbrigðu sambandi. Þessi æfing afsakar ekki né afneitar því sem kom þér í uppnám heldur virkar sem nokkurs konar jafnvægisafl gegn vanþakklætinu. Þakklætið er undirstaða sáttar og vellíðanar.

Facebook Comments Box