Það mikilvægasta sem við getum kennt börnunum okkar

Það er líklega fátt sem hefur eins mikil áhrif á árangur okkar og hamingju og hugarfarið sem við búum yfir. Hugarfar okkar hefur áhrif á það hvernig við tökumst á við mótlæti, hvernig við bregðumst við þeim mistökum sem við gerum, hvaða verkefni við ákveðum að takast á við  í lífinu og hvernig við tökumst á við þau verkefni. Carol Dweck,  prófessor í sálfræði, er drottningin í rannsóknum á hugarfari. Útúr rannsóknum Dweck hafa komið tvær tegundir hugarfars, fastmótað hugarfar (e.fixed mindset) og gróskuhugarfar (e. growth mindset).

Fastmótað hugarfar

Magnea er með fastmótað hugarfar. Hún sér greind, hæfileika og getu sem fastmótaða eiginleika, það er að segja að þessa þætti sé ekki hægt að styrkja og það að vinna í að styrkja þessa þætti sé tímaeyðsla. Hún trúir því að hún sé einfaldlega góð í sumu en léleg í öðru og ekkert fái því breytt. Þegar Magneu mistekst eitthvað eða verkefni sem hún tekst á við er henni erfitt lítur hún svo á að verkefnið sé ekki fyrir hana, að hennar geta eða greind dugi ekki til að leysa verkefnið og muni ekki duga. Hún gefst upp gagnvart verkefninu og mun í framtíðinni forðast að takast aftur á við álíka verkefni sem afhjúpar getuleysi hennar. Fyrir Magneu eru mistök ekkert annað en dómur yfir eigin getu, dómur sem hún forðast best með því að taka einungis að sér auðveld verkefni sem víst er að ekki munu mistakast. Fastmótað hugarfar Magneu leiðir til þess að hún byggir ekki upp hjá sér þrautseigju, óttast áskoranir og sér ekki ástæðu til að læra nýja hluti eða að leggja á sig vinnu við að æfa upp getu.

Gróskuhugarfar

Þröstur er með gróskuhugarfar. Hann trúir því að greind, hæfileikar og geta séu alltaf afrakstur vinnu og að þessir þættir styrkist með því að láta á þá reyna. Þröstur þrífst á því að leggja á sig vinnu við að verða betri í því sem hann kunni ekki áður. Hann sækist í verkefni sem eru aðeins fyrir ofan hans getu, verkefni sem gjarnan mistakast í fyrstu tilraun. Mistökunum tekur hann svo sem lærdómi og þekkingu sem nýtist honum næst þegar hann tekst á við verkefnið, svo reynir aftur og aftur þar til verkefnið tekst. Gróskuhugarfar Þrastar leiðir til aukinnar þrautseigju hans, vilja til að takast á við áskoranir og stór verkefni og þrá í að læra nýja hluti og leggja á sig vinnu við að æfa upp getu sem áður var ekki til staðar.

Að hrósa rétt

Gróskuhugarfar er grunnurinn að því að börnin okkar þrói með sér þrautseigju, einn mikilvægasta eiginleika sem þau geta búið yfir til að vegna vel í lífinu. Besta leiðin fyrir foreldra til að stuðla að því að börnin þeirra þrói með sér gróskuhugarfar er að huga að því hvernig þau hrósa börnum sínum. Foreldrar ættu að beina hrósinu að vinnunni sem barnið hefur lagt á sig til að afreka það sem það afrekaði frekar en afrekinu sjálfu. Dæmi um slíkt hrós gæti hljómað eitthvað á þessa leið:

„Það var frábært að sjá á einkuninni sem þú fékkst í stærðfræðiprófinu hvað þú hefur lagt þig mikið fram við að læra.“

Dæmi um hvernig hrós fyrir sama afrek myndi frekar stuðla að fastmótuðu hugarfari barnsins heldur en gróskuhugarfari væri:

„Það var aldeilis frábær einkunn sem þú fékkst á stærðfræðiprófinu. Þú ert greinilega algjört stærðfræðiséní“.

Í fyrra dæminu er hrósinu beint að vinnunni sem lá að baki því að fá góða einkunn á stærðfræðiprófinu og barninu gefið til kynna að slík afrek séu afrakstur vinnu. Í seinna dæminu gefur foreldrið hins vegar í skyn að barnið sé gott í stærðfræði af náttúrunnar hendi, að stærðfræðikunnátta sé fastmótuð. Slík hrós eru varasöm þar sem þau geta smátt og smátt plantað þeirri hugmynd í huga barna að geta, hæfileikar eða greind séu meðfæddir eiginleikar sem breytist ekki, að barnið sé einfaldlega stærðfræðiséní og þess vegna hafi því gengið vel á prófinu. Öllu máli skiptir að foreldrar komi þeim skilaboðum til barna sinna þegar þau ná árangri að árangurinn sé tilkominn vegna vinnunar sem barnið lagði á sig, en að það hafi ekki fæðst sem snillingur. Að sama skapi er mikilvægt þegar börnum gengur illa, hlutirnir heppnast ekki í fyrstu tilraun, að foreldrar hvetji barnið áfram og leyfi því ekki að gefast upp. Í slíkum aðstæðum getur verið gott að rifja upp hæfileika sem barnið hefur áður byggt upp með æfingu og endurtekningum, rifja upp þegar barnið gat ekki haldið fótbolta einu sinni á lofti en hvernig það er farið að geta haldið boltanum á lofti 50 sinnum í dag. Aldrei gefa í skyn að það sem barnið getur ekki gert í dag „liggi ekki fyrir því“ eða „sé ekki fyrir það“ heldur skal alltaf sannfæra barnið um að það geti orðið gott í því sem það vill með því að leggja á sig vinnu.

Foreldrar bera stærsta ábyrgð á því hugarfari sem börn og unglingar tileinka sér og mun hafa áhrif á árangur þeirra og hamingju í framtíðinni. Foreldrar ættu að kenna börnum vinnusemi, að elska áskoranir, halda áfram þegar hlutirnir eru erfiðir og taka mistökum opnum örmum sem lærdómstækifærum. Þannig stuðla foreldrar að því að börnin þeirra þrói með sér gróskuhugarfar sem leiðir til þrautseigju, eins allra mikilvægasta eiginleika sem við getum búið yfir til að vegna vel í lífinu.

Höfundur pistils er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi á www.haus.is

Facebook Comments Box