Njótum þess að vera við sjálf
Við eigum það til að bera okkur saman við aðra, hvort sem það er í sambandi við árangur í starfi, frammistöðu í íþróttum, uppeldishæfni eða útlit. Slíkur samanburður hefur sjaldnast þau áhrif að auka vellíðan okkar þar sem hann er oft óraunhæfur. Við eigum það til að einblína á kosti annarra á meðan við drögum úr eigin hæfileikum, sem getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmyndina. Neikvæður félagslegur samanburður getur birst á eftirfarandi hátt:
- Við réttlætum hegðun okkar eða kennum öðrum um hana
Við reynum að forðast tilfinningaleg óþægindi þess að vera ekki að vinna að eigin markmiðum eða lifa gildin okkar á meðan við fylgjumst með öðrum ná árangri og segjum svo við okkur sjálf: „Þetta er hvort eð er ekki rétti tíminn“, eða „Ég finn mig í starfinu sem ég er í“, og réttlætum þannig hegðun okkar. Eða þá að við leikum fórnarlambsleik og kennum öðrum um það að vera ekki þar sem við vildum vera. „Þjálfarinn hefur ekki trú á mér“ eða „Ég er látinn vinna tveggja manna starf.“ Það að réttlæta eða kenna öðrum um getur orðið til þess að við finnum til öfundar og óréttlæti eða fyllumst reiði. Við verðum neikvæð eða kaldhæðin og reynum, hugsanlega ómeðvitað, að kalla fram samúð eða viðurkenningu annarra fyrir aðgerðarleysi okkar. Í kjölfarið hellist svo yfir okkur eftirsjá fyrir að hafa ekki tekið af skarið.
2. Við gerum lítið úr sjálfum okkur og eigin ágæti
Þegar við berum okkur saman við aðra getur okkur fundist við vera lítil, óverðug eða jafnvel óhæf. Okkar innri gagnrýnandi hækkar róminn og talar niður til okkar: „Það er nú ekki eins og þú sért jafn greindur, myndarlegur og hæfileikaríkur og hinir.“ Síðan reynir hann að sannfæra okkur um misbresti okkar: „Þú féllst jú á prófinu í 10. bekk.“ Oft reynum við að deyfa þessar óþægilegu tilfinningar með því að troða ofan í okkur mat, fara í búðarráp, neyta áfengis, þykjast vera mjög upptekin, eyða tíma á samfélagsmiðlun eða stunda hámhorf. Á meðan bíðum við eftir að einhver kasti til okkar björgunarlínu, t.d. í formi hróss.
3. Við reynum að sýna og sanna að við séum verðug eða gerum lítið úr öðrum
Félagslegur samanburður leiðir oft og tíðum til þess að við felum gallana okkar og reynum að sanna að við eigum skilið að fá viðurkenningu eða þakklæti. Birtingarmynd þess er að við leggjum okkur fram um að skara fram úr öðrum, sem getur leitt til þess að við brennum út eða upplifum vanlíðan vegna þess að markmið okkar fá hjartað ekki til að slá hraðar eða eru óraunhæf. Hinar leiðirnar eru að við hælum okkur sjálfum fyrir að hafa staðið okkur afburða vel, jafnvel þótt að við höfum ekki náð sérstaklega miklum árangri, eða gerum lítið úr öðrum með hroka, svívirðingum eða slúðri. Okkur líður hugsanlega vel í kjölfarið, en því miður er yfirleitt aðeins um að ræða tímabundna vellíðan.
Afleiðingin af þessum viðbrögðum er að innri gagnrýnandinn tekur yfir og byrjar að stjórna lífi okkar, annaðhvort með því að rakka okkur niður fyrir það hversu illa við stöndum okkur í samanburði við aðra, eða með því að neyða okkur í áttina að hegðun sem snýst meira um sjálfsvörn en eigin gildi og markmið.
Komum fram við okkur af mildi og skilningi
Það er mikilvægt að einblína á okkar eigið líf frekar en annarra og sýna góðvild í eigin garð. Þegar við göngumst við raunveruleika okkar með vinsemd, mildi og skilningi náum við að víkka sjónarhorn okkar og sjá heildarmyndina. Þá áttum við okkur mögulega á því að við höfum þegar náð meiri árangri en við bjuggumst við eða þá að árangur annarra samræmist ekki því sem við viljum sjálf fá út úr lífinu. Góðvild í eigin garð getur orðið eldsneytið sem knýr aðgerðum okkar áfram og fær okkur til að upplifa raunverulega hamingju. Eina manneskjan sem við ættum að bera okkur saman við er við sjálf. Hættum að bera okkur saman við aðra og njótum þess að vera við sjálf.
Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman sem er með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði og leiðbeinandi hjá Þekkingarmiðlun.