Mótsögnin í því að líða þæginlega með því að gera það óþæginlega
Við erum stöðugt að reyna að gera hlutina eins þægilega fyrir okkur eins og við getum. Við reynum að forðast óþægindi eins og heitan eldinn. Við erum alltaf að bíða eftir að klára einhvað krefjandi svo að okkur geti loksins liðið þægilega án þess að hafa neina ábyrgð.
Að lifa þæginlegu lífi hljómar mjög vel. En hversu langur tími líður þangað til að hið þægilega líf verður leiðinlegt? Flestir hafa upplifað tilfininguna að vera þreyttur á þægindum, t.d. þegar einstaklingar eru búnir að vera fríi frá vinnu of lengi eða þegar þeir eru búnir að liggja á bakkanum á Spáni tólf daga í röð, þá hreinlega þrá þeir að komast aftur heim í rútínu og venjulega lífið.
Auðvitað er gaman og mikilvægt að fara til útlanda, horfa á bíómynd eða njóta þess að líða þægilega inn á milli. En vandamálið er þegar einstaklingar kjósa stöðugt að sækja í þægindi og skammvinnu ánægjuna sem því fylgir.
Flestir standa frammi fyrir tveim valkostum hverju sinni.
Fyrri valkosturinn er sækja meðvitað í stöðug þægindi án allrar ábyrgðar. Mér finnst það val í lagi ef fólk er meðvitað um afleiðingarnar. Þeir sem kjósa þennan valkost fórna því að lifa merkingarfullu lífi og eiga í hættu á að verða þunglynd, pirruð og bitur út í sjálfan sig og lífið.
Hinn valkosturinn er að gera það sem er óþægilegt, erfitt og krefjandi:
- Það er að sækjast í áskoranir
- Það er að þora að stefna á hluti þrátt fyrir að það sé möguleiki á að mistakast.
- Það er að sýna þrautsegju gagnvart hindrunum.
- Það er að hafa trú á sjálfum sér þó maður viti ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
- Það er að taka meðvitaða ábyrgð á möguleikunum sem maður hefur í lífinu jafnvel þó maður geti ekki vitað hvað gerist ef við veljum valkost A í staðinn fyrir valkost B.
- Það er að sýna hugrekki gagnvart kvíðanum sem fylgir því að vera á lífi því hann er aldrei að fara.
Þetta er spurning um að taka eitt skref í svokallaða ókannaða svæðið á meðan þú heldur einum fætinum inn í kannaða svæðinu. Í ókannaða svæðinu er óregla, óvissa, kvíði, erfiðleikar, áskoranir, hindraninir og óþægindi. Í kannaða svæðinu er allt á hreinu, reglur, þægindi og vitneskja. Of mikil þægindi skapa vanlíðan en óreiða og ótti fylgir of miklum óþægindum.
Að finna milliveginn í því að líða óþæginlega og þæginlega. Eins og þegar Jon Snow og hans föruneyti fóru norðan veggjarins að sækja eitt stykki White Walker. Líkt og þegar Sámur og Frodo tóku skrefið út úr héraðinu í áttina að Mordor. Eins og ég geri þegar ég fer í kalda sturtu á morgnana.
Það er á þinni ábyrgð hvort þú kýst óþægindi eða þægindi hverju sinni. Hafðu þó þetta í huga: Ef lífið þitt er ekki á einhvern hátt óþægilegt og erfitt, þá miðar þér ekki áfram í lífinu. Þú stendur í stað. Þú vex ekki sem einstaklingur. Þú tekur í staðinn lítil skref aftur á bak.
Taktu eitt skref inn í ókannaða svæðið. Þar er er lærdóm og grósku að finna. Þar upplifir þú tilgang með tilverunni. Þar eflist þú og verður betri einstaklingur í dag heldur en þú varst i gær.
Höfundur greinar er Beggi Ólafs – www.beggiolafs.com