Hvað eru kolvetni?

Öll kolvetni eru byggð úr smáum sykursameindum, t.d. glúkósa. Einföld kolvetni, t.d. hvítur sykur, hunang og ávaxtasykur eru byggð úr fáum sykursameindum, en flókinkolvetni, t.d. sterkja, sem er að finna í kornvörum, kartöflum, hrísgrjónum, pasta, grænmeti og baunum, eru byggð úr fjölmörgum sykursameindum.

Þegar við borðum kolvetni brjóta meltingarhvatar þau niður í glúkósa og aðrar sykursameindir sem breytast síðan í glúkósa og fara þannig úr meltingarveginum inn í blóðrásina. Glúkósi í blóðinu er kallaður blóðsykur. Blóðsykurinn er annaðhvort notaður strax sem orkugjafi eða breytt í glýkógen, sem er geymt í vöðvum og lifur. Vöðvar geta geymt 300-500 grömm af glýkógeni, en lifur aðeins um 100 grömm. Glúkósi er síðan losaður úr glýkógen forðanum þegar þörf er á. Þannig nýta vöðvar glýkógenforða sinnsem orkugjafa við aukið álag, en lifrin sér um að halda blóðsykri stöðugum með þvíað losa glúkósa úr glýkógenforða sínum milli máltíða og um nætur. Glúkósa sem hvorki er nýttur strax sem orkugjafi eða geymdur sem glýkógen í vöðvum og lifur er breytt í fitu. Kolvetni eru mjög aðgengilegur orkugjafi fyrir líkamann. Þau eru yfirleitt orkurík og fljótmelt, auk þess að vera létt í maga. Sum flókin kolvetni, t.d. trefjar í grófu korni og grænmeti, eru þó ómeltanleg og nýtast því ekki sem orkugjafar, en hafa góð áhrif á meltingu og meltingarfæri og einnig blóðsykur.

Að jafnaði ættu 55-65% af orkuneyslu þeirra sem stunda íþróttir að koma úr kolvetnum. Þetta á einkum við um þá sem stunda íþróttagreinar þar sem þol er mikilvægt en eftir því sem íþróttagreinin krefst meira úthalds þeim mun meira eykst þörfin fyrir kolvetni. Kolvetnaþörf einstaklinga er mismunandi og fer eftir líkamsþyngd og álagi.

Greinin birtist fyrst í bækling um næringu íþróttafólks á www.isi.is

Facebook Comments Box