Ég læt engan segja mér að ég geti ekki gert eitthvað
Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir hefur spilað fótbolta frá því hún var sex ára. Hún átti sér ekki margar fyrirmyndir í fótboltaheiminum og taldi fótbolta sem atvinnu fjarlægan draum. Nú hefur hún spilað knattspyrnu í 22 ár og komist að því að mótlæti er lærdómur.
Ég byrjaði að æfa fótbolta þegar ég var 6 ára gömul og hef nú spilað fótbolta í 22 ár. Pabbi minn fór með mér á fyrstu fótboltaæfinguna. Eftir hana var ekki aftur snúið. Ég hef frá fyrsta degi haft mikinn áhuga og aldrei þurft utanaðkomandi hvatningu. Ég hef alltaf elskað að æfa og spila fótbolta.
Pabbi var alltaf mikill áhugamaður um fótbolta og var ég alin upp við að alltaf var kveikt á enska boltanum í sjónvarpinu. Ég átti ekki margar fyrirmyndir til að líta upp til og fótbolti sem vinna var fjarlægur draumur. Ég gat ekki ímyndað mér að einn daginn gæti ég spilað sem atvinnukona í knattspyrnu og verið í sjónvarpinu.
Það sem hefur skilað mér á þann stað sem ég er á í dag er keppnisskapið. Ég hef alltaf verið gríðarlega mikil keppnismanneskja og hef í gegnum tíðina fyrst og fremst keppt við sjálfa mig. Það hefur alltaf verið mitt helsta markmið að sigra – út á skólalóð með bekkjarfélögunum, á öllum fótboltamótum og á æfingum. Ég spilaði fyrir mömmu og pabba sem komu á hvern einasta leik og fótboltamót til að styðja mig. Mig langaði að sýna þeim hvað ég gæti og hversu góð ég væri. Ég uppgötvaði snemma styrkleika mína sem eru vörumerki mitt sem fótboltakona. Ástríðan, viljinn og keppnisskapið hafa verið til staðar, svo hef ég alltaf verið áræðin, spilað hart og farið í hverja einustu tæklingu og návígi til að vinna. Það hefur hjálpað mér mikið að ég hef alltaf verið í góðu líkamlega standi og getað hlaupið mikið. Þetta hefur skilað því að ég er áberandi í leikjum og virðist vera út um allan völl. Þegar ég var yngri vildi ég ávallt hafa boltann. Ég þurfti að stjórna, ég vildi vinna. Ég öskraði oft á liðsfélaga mína um að senda á mig og reyndi alltaf að benda þeim á hvað þær áttu að gera, hvert átti að senda og á hvern. Stundum var ég of stjórnsöm og fór yfir línuna. Liðsfélagarnir mínir og foreldrar þeirra voru oft ekki sáttir með mína framkomu á vellinum, en ég átti erfitt með að hætta, því þetta var ég. Ég vildi gera allt til þess að vinna. Ég þoldi ekki að tapa eða keppa fyrir ekki neitt. Ég var ekki bara að spila vegna félagsskaparins eða til þess að vera með. Mig langaði að komast langt og skara fram úr.
Ég set það sem forgangsatriði og fókus í mínum leik að styrkleikar mínir fái að skína
Hugarfarið mitt hefur komið mér á þann stað sem ég er á í dag. Ég set það sem forgangsatriði og fókus í mínum leik að styrkleikar mínir fái að skína, þá næ ég að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Sem íþróttakona vil ég samt alltaf meira. Ég er aldrei 100% ánægð með mína frammistöðu. Ég þekki mína styrkleika, en er mjög meðvituð um veikleika mína líka og í hverju ég get haldið áfram að bæta mig. Þeir sem ná lengst eru aldrei saddir. Allt snýst um að halda áfram að toppa sína eigin frammistöðu, sama hversu góð hún er þá er alltaf hægt að bæta sig.
Á ferli mínum hef ég komist að því að mótlæti er lærdómur. Ég hef lent í mótlæti og það skilgreinir mig sem þá fótboltakonu sem ég er í dag. Ég tel að maður ákveði sjálfur hvort maður vilji læra af mótlætinu og nota það til að verða betri eða hætta og gefast upp. Ég hef tileinkað mér það hugarfar á mínum ferli að mótlæti hvetur mig áfram, mótlæti gefur mér tækifæri til að sanna mig upp á nýtt og sýna sjálfri mér og öðrum hvað virkilega býr innra með mér. Ég læt engan segja mér að ég geti ekki gert eitthvað.
Maður þarf að loka á þessar efasemdaraddir og halda áfram að hafa trú á sér, sínum draumum og markmiðum
Hversu oft ætli ég hafi heyrt eitthvað á borð við þetta: Af hverju er hún alltaf í byrjunarliðinu? Hún er ekki nógu góð. Ætlar hún í atvinnumennsku? Hún mun aldrei meika það. Ætlar hún að verða besti miðjumaður í heimi? Hún mun ekki fá að spila.
Það er til fólk sem hefur 100% trú á þér, en svo er líka til fólk sem efast um þig, afbrýðissamt fólk, fólk sem baktalar þig, kemur af stað með orðrómi um þig og svo framvegis. Það er hluti af íþróttaheiminum. Maður þarf að loka á þessar efasemdaraddir og halda áfram að hafa trú á sér, sínum draumum og markmiðum.
Ég hef lent í þessu öllu og ég hef lært í gegnum tíðina að taka því ekki persónulega og láta neikvætt fólk ekki hafa neikvæð áhrif á mig, heldur þvert á móti. Neikvæð umræða annarra fær mig til að ýta mér aðeins lengra. Ég hef tæklað þetta mótlæti með því að fara á þrjú stórmót með kvennalandsliði Íslands, ég hef farið í atvinnumennsku, spilað alla leikina sem fastamaður í liðinu og unnið marga titla í bestu deildum í heiminum. Ég hef komist í úrslitaleik í meistaradeildinni. Og ég er ekki hætt!
Að lokum langar mig að nefna það hvað kvennaknattspyrna hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma og mun halda áfram að þróast og verða enn betri. Á hverju stórmótinu á fætur öðru sérðu ný lið bæta sig og færast ofar. Leikmenn eru orðnir betri, gæðin meiri, hraðinn hefur aukist, ungir og nýjir leikmenn eru að skara framúr. Samkeppnin hefur aldrei verið eins mikil og nú.
Í dag eru fyrirmyndirnar margar sem ungar fótboltastelpur geta litið upp til og möguleikanir sem eru í boði fyrir þær eru miklir. Ég vildi stundum að ég væri orðin 10 ára á ný. Ungar íslenskar stelpur sjá kvennalandslið Íslands í fótbolta komast á stórmót og geta látið sig dreyma um það sjálfar að komast í landsliðið og upplifa stórmót. Einnig geta þær sett sér markmið um að fara í atvinnumennsku í bestu deildir í heiminum. Aðstæður í dag bjóða uppá alla þessa möguleika, en það er á endanum undir leikmanninum sjálfum komið, hversu mikið hann er tilbúinn til að leggja á sig, hvort hann nær alla leið. Ég hef tekið eftir því að mikið af leikmönnum eru í ákveðnum þægindarramma og halda að þeir geti ekki bætt sig meira og séu búnir að toppa sig sem leikmenn. Þessir leikmenn eru ánægðir með að vera bara með, að komast í hóp en vera ekki byrjunarliði, eru kannski að æfa við toppaðstæður en fullnýta sér það ekki, eru sáttir við það næstbesta.
Ég spyr, er það nóg?
Nei! Ekki ef þú vilt skara fram úr og spila með þeim bestu í heimi. Í dag þarftu meira. Þú þarft að láta þig dreyma og setja þér háleit en raunhæf markmið. Það er ekki nóg að skrifa þau niður eða horfa á þau.
Láttu hlutina gerast!
Ekki láta neinn koma í veg fyrir þína drauma og markmið. Vertu tilbúin(n) til að leggja allt í sölurnar og láta verkin tala. Það er eitthvað sem einkennir þig sem leikmann. Vertu þinn eigin karakter.Trúðu á þína styrkleika og farðu alla leið með þá.
Trú á eigin getu, vilji og sjálfstraust er eitthvað sem getur fleytt þér ansi langt.
Greinin birtist fyrst á www.synumkarakter.is