Að setja sér markmið, úr smiðju Loga Geirssonar
Að vera með markmið er ótrúlega mikilvægt og ein besta leið til árangurs sem um getur. Mig langar til þess að segja mína sögu um það hvernig ég hef beitt Markmiðsetningu, en fyrst ætla ég að reyna að útskýra aðeins mikilvægi hennar. “Markmið eru eldsneyti í ofn afrekanna” en manneskja án markmiða er eins og skip á stýris, sem siglir stefnulaust í sífelldri hættu um skipbrot. Manneskja sem hefur markmið er líkt og skip sem stjórnað er af skipstjóra. Það er með stýri, áttvita, kort og er siglt af einbeitingu í höfnina sem stefnt var á. Þeir sem læra að setja sér markmið og vinna eftir þeim geta afkastað meiru á nokkrum árum en margir gera á heilli ævi. Markmiðsetning er aðferð sem fjöldi fólks notar til að ná starfstengdum og persónulegum markmiðum. Að setja sér markmið er að ákveða hvaða árangri við viljum ná. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem ná miklum árangri í lífinu vita á hvaða mark þeir miða og hvað þeim finnst mikilvægt. Til þess að geta sett okkur markmið þurfum við að vita nákvæmlega hvað við viljum og þráum. Við þurfum að setja okkur raunhæf markmið og gera okkur í hugarlund hvernig við ætlum að ná þeim. Við þurfum svo að búa yfir þrautseigju, viljastyrk og sjálfsaga og gefast alls ekki upp þótt á móti blási. Margir vita ekki hvernig þeir eiga að setja sér greinileg og góð markmið. Góð markmið eru sértæk og mælanleg, t.d. í tíma eða magni. Mælanleg og sértæk markmið hjálpa okkur að mæla stöðugar framfarir og árangur. Mikilvægt er að setja tímamörk á markmið því án tímamarka er mjög freistandi að fresta aðgerðum. Tímamörk eru skuldbinding og hvetja okkur enn meira til dáða, ég hef sjálfur mikið sett mér markmið sem eiga að klárast innan ákveðinna tímamarka en stundum er þitt besta ekki nóg. En það er engin endastöð eiginlega þveröfugt, með réttu hugarfari og líta í áttina að ljósinu, eflist maður við hverja raun og “allt sem drepur mann ekki styrkir mann”, hversu oft höfum við heyrt þetta? Ég persónulega vel mér að hugsa að í hreinu myrkri er ekkert nema von. Mikilvægt er að við leyfum okkur að gera mistök og lítum á þau sem leið til enn frekari endurbóta. Oft er réttilega bent á að þeir sem skara fram úr á ýmsum sviðum hafa gert hvað flest mistök. Það skýrist af því að þeir sem þora að taka áhættu og breyta til í lífi sínu gera því mistök og læra af þeim. Ef við viljum forðast öll mistök og áhættu í lífinu erum við að neita að horfast í augu við sem skiptir mestu máli, “Maður lærir af reynslunni, allt annað eru bara upplýsingar.”
Að ná árangri í lífinu er ekki tilviljunum háð, eins og margir halda, heldur afurð ýmissa aðferða og lögmála. Maður uppsker eins og maður sáir og möguleikarnir eru ótarkmarkaðir. Maður getur gert, átt og verið það sem maður vill. Jafnvel þó að einstaklingar séu ólíkir að upplagi og getu, er markmiðssetning hlutur sem flestir ættu að læra og nýta sér. Hérna er ein formúla sem er mikið notuð til að hjálpa fólki hvernig gott sé að fara að. Auðvita hefur hver og einn sinn hátt á því hvernig hann vill sigla að sínu markmiði. Markmiðin eru misstór og engin ein leið betri en önnur.
* 1) Ákveða nákvæmlega hvað maður er að sækjast eftir
* 2) Skrifa markmiðið í smáatriðum niður á blað
* 3) Setja dagsetningu á hvenær markmiðið á að hafa náðst
* 4) Gera lista yfir allt sem þarf að gera til að ná markmiðinu og skrifa það niður!
* 5) Forgangsraða og skipuleggja listann- gera verkáætlun
* 6) Byrja að vinna eftir áætluninni
* 7) Gera eitthvað á hverjum degi til að markmiðið náist
En ég held að ég sé búinn að útskýra á stuttann og vonandi áhrifaríkan hátt mikilvægi Markmiða. Engu að síður vill ég deila því með ykkur hvernig ég hef notað markmiðssetningu. Þegar mig langar til þess að koma einhverju í framkvæmd geri ég það að “Markmiði” og þá skiptir það mig engu hversu stórt það er. Sumum finnst gott að skrifa allt á blað eins og ég ritaði hér að ofan, og gerði ég það þegar ég var að byrja, eftir góða þjálfun hef ég valið mér að gera það í huganum. Ég set mér vanalega stór markmið og vinn mig hægt og rólega upp fjallið þ.e. klára og yfirvinna allar litlu hindranirnar, á leiðinni á toppinn. Ég ætla að taka dæmi, en þetta var eitt stærsta markmið sem ég hef sett mér.
Þegar ég var 17 ára gamall var ég 184 cm og 67 kg, þessar tölur segja meira en mörg orð. Ég átti mér einn draum og það var að verða Atvinnumaður í Handbolta. Það var meira en augljóst að það væri ómögulegt með þessa líkamsbyggingu, ég gat varla skorað mark í 3. flokki en þeir sem þekkja inná handboltann vita hvað ég er að meina. Ég man ég keyrði uppá Álftanes og sat þar í fjörunni eina kvöldstund og sagði við mig “Logi þú getur þetta”, mér fannst eins og þetta hefði átt að gerast, en það gerir þetta enginn fyrir þig hugsaði ég. Ég fór heim og skrifaði allt sem ég þyrfti að uppfylla til þess að komast á toppinn á Fjallinu. Það eru 5 ár síðan svo ég man ekki alla punktana en hérna koma þeir sem ég man, vera alveg vímulaus sem ég hef reyndar alltaf verið, ekkert vín eða reykingar, lyfta 5 sinnum í viku, hlaupa 2 sinnum, þyngja mig um 20 kg á einu ári, lesa mig til um hvað aðrir afreksmenn gerðu til að verða góðir, og umfram allt að hafa trú á mér að ég gæti þetta, en trúin ein og sér fleytir manni meira en hálfa leið. Þessi stutti markmiðstexti sagði mér í rauninni að ef ég kláraði hann myndi ég komast þangað sem mig dreymdi um. Enginn hafði trú á þessu með mér ekki einn maður, ég fór í alltaf ræktina en þyngdist ekki um gramm. Ég var búinn að lyfta í 1 mánuð og ekkert sást á mér, ég hélt samt áfram næstum búinn að missa áhugann en hafði alltaf trú á mér. Eftir tveggja mánaða prógram var ég byrjaður að sjá árangur, loksins en hann var sára lítill, þetta var einsog vítamínsprauta fyrir mig. Á þessum 2 mánuðum hafði ég prófað að drekka rjóma fyrir svefninn, vakna á nóttunni til að borða en næstum ekkert hafði breyst. Ég hélt áfram og áfram og áfram og ímyndaði mér alltaf ljósið á toppnum þó að mikil þoka hafi umlukið það á sumum tímum.
Einu ári seinna og mörg hundruð erfiðra æfinga seinna var ég orðinn 21 kg þyngri og hélt mínu striki. 21 kg er eitthvað sem er auðvelt að skrifa en vinnan á bakvið þetta var ískyggileg. Smá saman fóru hlutir að breytast hjá mér, sjálfstraustið stórlagaðist, mér leið betur og fannst ég hafa náð stjórn á því sem ég ætlaði mér, ég var búinn að opna dyr sem mig grunaði ekki að væru til. Þið sem náið ykkar markmiðum komist að því að það getur verið kalt á toppnum. Þegar ég hafði lagt allt þetta á mig fóru að koma alls konar sögur frá neikvæða fólkinu um að ég hefði gert þetta með einhverjum lyfjum og svo framvegis, ég tók því bara með bros á vör.
“Before you criticize someone you should walk a mile in their shoes… then when you criticize them your a mile away and you have their shoes”
Þessi markmiðssaga mín á ekki að vera einhver biblía eða nr. 1-2 og 3 í greininni, langt því frá. Þetta var einungis dæmisaga og hvernig ég hef unnið úr mínum markmiðum og náð þeim. Núna hef ég önnur og stærri markmið sem þurfa skipulaggningar og metnaðar í alla staði. Stærsta ástæða þess að sumir eiga oft erfitt með að ná markmiðum sínum er sú að fólk er ekki tilbúið að leggja nógu hart að sér.
Þessi grein mín er ekki einungis fyrir Íþróttamenn heldur fyrir alla, sama hvort þú sért að bæta þig sem persónu, komast í landslið, koma þér í gott form, setja markið hærra í skólanum eða á vinnumarkaðinum. Ef að þú kæri lesandi tekur þessi orð mín að alvöru sem ég veit að þú munt gera áttu eftir að bæta þig sem einstakling og koma hlutum í verk sem þig hefur langað og dreymt um. Mín setning til þín er að þér eru allir vegir færir, gerðu ekki eins og aðrir vilja heldur eins og þú vilt gera það.
Kveðja, Logi Geirsson
“In life you don’t get what you want. You get what you are. The best way to improve yourself is to change what goes into your mind. What you think determines what you do. What you do determines what you accomplish.”