Hugrekki umfram sjálfstraust
Margir velta fyrir sér hvernig sé hægt að fá betra sjálfstraust, sem er hægt að lýsa sem að vera örugg/ur og hafa trú á sjálfum sér. Það eru ýmsar pælingar hvað varðar sjálfstraust og hér kemur ein.
Sjálfstraust er eitthvað sem er ekki til. Hvað meina ég með því? Sjálfstraust er sett upp saman af ákveðnum eiginleikum hjá fólki. Auðvitað er sjálfstraust til sem hugtak en það sem myndar hugtakið er byggt á hegðun, hugsun og tilfinningum fólks.
Á maður að vera með gott sjálfstraust á öllum vígstöðum í lífinu? Ég held ekki. Ef þú værir í toppmálum allstaðar, hver væri þá hvatinn til að breyta lífinu þínu til betri vegar? Lífið er líka fáránlega erfitt og möguleikarnir á erfiðleikum endalausir. Þar að leiðandi ekki raunhæft og jafnvel óeðlilegt að vera með blússandi sjálfstraust á öllum sviðum lífsins. Of gott sjálfstraust getur líka haft slæmar afleiðingar. Sem dæmi, ef maður er með of hátt sjálfstraust þá er maður líklegri til að ofdýrka sjálfan sig og ofmeta sína eigin hæfni sem getur haft slæmar afleiðingar.
Ég er með eina pælingu sem ég hef velt fyrir mér í smá tíma. Hvað með að hætta að tala svona mikið um sjálfstraust. Hvað með að leggja áherslu á hugrekki? Hvað meina ég með hugrekki? Jú að þora gera hluti. Að þora að stefna á einhvað, að þora að takast á við áskoranir, að þora að segja sannleikann, að þora að vera maður sjálfur, að þora leggja hart að þér þó svo það sé möguleiki á mistökum, að þora að byrja á einhverju þrátt fyrir kvíða og óvissuna sem fylgir því. Að ÞORA þrátt fyrir að lífið sé erfitt með öllum þínum takmörkunum.
Sem afleiðing af hugrekki, að þora, þá gæti þetta umtalaða sjálfstraust aukist. Ef þú sýnir hugrekki og reynir að eiga við hluti sem eru erfiðir eins og ég taldi upp áðan, þá eflist þú sem einstaklingur. Þú lærir meira þar sem þú líklegri til að reyna við hluti sem þú myndir frekar fresta, þú ert líklegri til að vera ánægður með sjálfan þig fyrir að hafa þorað að gera ákveðna hluti sem þú vilt virkilega áorka og þú ert líklegri til að ná árangri þar sem hæfnin þín mun bætast.
Sýndu hugrekki. Þrátt fyrir erfiðleika tilverunnar. Þrátt fyrir þínar núverandi takmarkanir. Þú vex sem einstaklingur þegar þú þorir. Það verður til þess að þér líður vel með sjálfan þig.
Höfundur greinar er Beggi Ólafs
www.beggiolafs.com