Stjórn- og óstjórn í leik og starfi – Hugarleikfimi #5 í samkomubanninu
Það er oft mjög flókið að vera íþróttamaður þrátt fyrir að á yfirborðinu kunni það að virðast einfalt þegar hetjurnar í okkar íþróttagrein leika listir sínar á skjánum eða þegar við fylgjumst með fyrirmyndunum sem við lítum upp til hér á landi í keppni.
Hver og einn þessara íþróttamanna á sína sögu og vegferð upp stigann í fremstu röð í sinni grein. Sagan er sjaldnast eins en margir sögupunktar í þessari vegferð eru sameiginlegir – t.d. hafa allir íþróttamennirnir þurft að leggja gríðarlega mikið á sig til að komast í fremstu röð. Endalaus tími hefur
farið í æfingar, að borða hollt og hvíla sig vel, margir þurftu að berjast í gegnum mikið mótlæti t.d. höfnun eða meiðsli. Það er til dæmis þekkt að Michael Jordan sem er einn besti körfuboltamaður sögunnar var ekki valinn í liðið í skólanum sínum í körfubolta þegar hann var yngri. Michael Phelps einn besti sundmaður sögunnar var ungur greindur með athyglisbrest með ofvirkni og gekk erfiðlega í skólanum. Þegar Antoine Griezmann var að reyna koma sér á framfæri sem ungur leikmaður fékk hann sífellt að heyra að hann væri of lágvaxinn, ekki nægilega sterkur og því mundi hann aldrei að ná langt. Griezmann var “afskrifaður” í heimalandi sínu Frakklandi og hélt til Spánar þar sem hann fékk loks tækifæri.
Þessar stórstjörnur í íþróttaheiminum leiða okkur að hugarleikfimi vikunnar sem snýst um það að æfa okkur að skilja hvaða þáttum við höfum stjórn á og hvaða þáttum við höfum enga stjórn á, bæði í lífinu og okkar íþróttagrein. Það er mikilvægt að við séum ekki að eyða mikilli orku og hugsunum í þætti sem við höfum ekki stjórn á.
Í tilviki Phelps leið honum ekki vel í skólanum, það var mjög mikið áreiti í skólastofunni og honum gekk illa sem hafði áhrif á sjálfstraustið hans. Í sundlauginni aftur á móti var hann á heimavelli þar sem áreitið var minna og hann gat einbeitt sér að fullu á fleygiferð í lauginni. Það hefði verið einfalt fyrir Jordan að gefast upp þegar hann komst ekki í skólaliðið þegar hann var fimmtán ára og kenna þjálfaranum um það sem sagði Jordan vera of lágvaxinn. Hvað gerði hann? Jú bæði hann og Griezmann notuðu mótlætið til að efla sig. Á hverjum degi æfðu þeir sig í þeim þáttum íþróttarinnar sem þeir gátu stjórnað. Það stjórnar enginn því hvað hann er stór, en það er hægt að bæta upp fyrir stærð með hraða, tækni og áræðni.
Allir þessir íþróttamenn hafa sagt í viðtölum að þeir hafi lært mikið af því sem þeir gengu í gegnum á yngri árum og notað það til að hvetja sig áfram, stundum ómeðvitað, eftir að þeir voru komnir í fremstu röð. Það eru oft
miklar væntingar gerðar til íþróttamanna um að standa sig vel, áreitið getur verið mikið frá áhorfendum, fjölmiðlum og andstæðingum og þá þarf að vera mjög flink/ur að geta stýrt einbeitingunni að því sem við höfum stjórn á.
Griezmann, Phelps og Jordan eyddu litlum tíma í hluti sem þeir gátu ekki stjórnað en notuðu alla sína orku og einbeitingu í að vinna í hlutum sem þeir gátu stjórnað. Nú skulum við velta þessu fyrir okkur og æfa þetta viðhorf.
Stjórn- og óstjórn í leik og starfi:
Hverju hefur þú sjálf/ur stjórn á? Hverju hefur þú enga stjórn á?
Hjálpar þér að eyða tíma í að hugsa um eitthvað sem þú getur ekki breytt?
Hefði það til dæmis hjálpað Jordan að hugsa sífellt um að hann var ekki valinn í liðið af því hann var of lítill?
Hjálpar það okkur í dag að hugsa of mikið um Covid-19 ástandið og óvissuna sem það býr til að geta ekki æft íþróttina sem við elskum?
Getum við snúið því yfir í jákvæðar hugsanir – hugsað enn meira og betur um það sem við getum stjórnað því við getum ekki stjórnað veirunni?
Æfing 5 –
Stjórn- og óstjórn í leik og starfi
Náðu þér í blað og blýant og gerðu æfinguna í réttri röð, 1-2-3.
- Skrifaðu niður 10 atriði sem þú hefur stjórn á í tengslum við þína íþrótt:
- Skrifaðu niður 10 atriði sem þú getur ekki stjórnað í tengslum við þína íþrótt:
- Veldu þér 3-5 atriði úr fyrri hlutanum, strikaðu undir þau og skrifaðu niður hvernig þú getur notað tímann í samkomubanninu til að bæta þig í þeim þáttum.
Dæmi: Ég get stjórnað hvíldinni minni og svefninum. Ég ætla alltaf að fara að sofa fyrir tíu á kvöldin. Ég get stjórnað því að vera góður og hvetjandi liðsfélagi. Ég ætla senda hvetjandi skilaboð á einhvern úr liðinu mínu.
Gangi ykkur vel. Það er mikilvægt að byrja á lið eitt því hugurinn er oft fljótur að færast beint yfir í það sem við stjórnum ekki. Það mun koma þér á óvart hversu oft þú hefur eytt orku, tíma og einbeitingu í hluti sem ekki hægt er að hafa áhrif á. Hver hefur ekki verið að keppa og dómarinn tekur ákvörðun sem maður er ekki sammála og næstu mínútur eða jafnvel allur leikurinn hefur farið í að hugsa um dómarann en ekki leikinn sem er í gangi.
Færðu orkuna og athyglina yfir á það sem þú getur haft áhrif á!
Kennsluefnið er hugsað fyrir íþróttafólk og aðstandendur þeirra og er unnið í samvinnu við Sálstofuna, Núvitundarsetrið og Dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur.