Hugarleikfimi #4 í samkomubanninu – Vöðvaslökun Jacobson

Fyrir íþróttafólk er mikilvægt að þjálfa líkamsvitund og hafa stjórn á vöðvaspennu. Það skiptir alla íþróttamenn máli að geta slakað á vöðvunum sínum en líka að geta spennt þá þegar það skiptir máli.

Íþróttamenn verða að geta áttað sig á muninum á spenntum vöðvum og
afslöppuðum vöðvum. Ef við áttum okkur á því að vöðvarnir okkar eru of spenntir er mikilvægt að geta slakað á þeim. Ef vöðvar íþróttamanns eru of spenntir þá er hann klaufalegri í hreyfingum og líkist spítukarli. Að vera eins og spítukarl hefur yfirleitt neikvæð áhrif á frammistöðu okkar og við verðum líklegri til að meiðast eða slasa okkur. Þá er mikilvægt að geta slakað á vöðvaspennunni til að mýkja spítukarlinn í rétta ”flæðið” eða
taktinn.

Jacobson vöðvaslökunaræfingin hefur reynst íþróttamönnum alveg sérstaklega vel og er notuð af íþróttamönnum um heim allan. Þessi
æfing reynist ekki bara vel til þess að slaka á spenntum vöðvum heldur æfir hún þig í almennri líkamsvitund, hjálpar til við endurheimt og getur líka dregið úr streitu og kvíða (tilfinningar sem allt íþróttafólk þekkir).

Þessi æfing er því líka kjörin fyrir foreldra ungra og efnilegra íþróttamanna.

Þessa æfingu getið þið gert sjálf eða með fjölskyldumeðlimum/vinum.

Æfingin hentar ekki jafn vel fyrir allra yngstu íþróttamennina eins og þá sem eldri eru. Við hvetjum foreldra þó til þess að prófa að gera æfinguna með yngstu iðkendunum.


• Setjist á stól. Einnig má leggjast í rúm eða sófa.


• Kveikið á meðfylgjandi hljóðskrá sem fylgir með æfingunni og fylgið leiðbeiningunum.


• Æfingin tekur um 14 mínútur.


• Þessa æfingu er gott að gera reglulega, æfingin skapar meistarann.


• Æfinguna má t.d. nota kvöldið fyrir keppni til að slaka vel á fyrir komandi átök.

Æfingin reynist ekki bara vel til þess að slaka á spenntum vöðvum heldur æfir hún þig í almennri líkamsvitund, hjálpar til viðendurheimt og getur líka dregið úr streitu og kvíða (tilfinningar sem allt íþróttafólk þekkir).

Kennsluefnið er hugsað fyrir íþróttafólk og aðstandendur þeirra og er unnið í samvinnu við Sálstofuna, Núvitundarsetrið og Dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur.

Facebook Comments Box