Að byggja upp sterka karaktera

Upp á síðkastið hefur reglulega skotið upp kollinum umræða um hvort sá eiginleiki sem einkennt hefur íslenskt íþróttafólk í gegnum tíðina, að vera sterkir karakterar sem tilbúnir eru að leggja á sig meiri vinnu en annað íþróttafólk, sé að tapast með nýjum kynslóðum. Málsmetandi menn og konur í íþróttaheiminum hafa lýst áhyggjum yfir því að ungt íþróttafólk í dag hafi það „of gott”. Sagt er að áskoranir sem áður fylgdu íþróttaiðkun, og styrktu karaktera ungs íþróttafólks, séu ekki lengur til staðar. Börn og unglingar eru hætt að þurfa að moka snjó af fótboltavellinum til að geta æft fótbolta í misgóðum veðrum, foreldrar eru viljugri til að skutla börnum sínum á æfingar og æ fleiri íþróttagreinar sem áður voru stundaðar utandyra við misjafnar aðstæður eru nú stundaðar innandyra við góðar aðstæður. Þessi þróun er á margan hátt jákvæð. Það má þó vissulega færa rök fyrir því að með upphituðum knattspyrnuhúsum, bættri aðstöðu og auknum vilja foreldra til að skutla börnum sínum á íþróttaæfingar séu ákveðnar áskoranir sem hertu íþróttafólk áður fyrr að hverfa. Tímarnir breytast og mennirnir þurfa að breytast með. Þegar þessar áskoranir sem áður hertu unga íþróttaiðkendur og byggðu upp í þeim sterkan karakter eru ekki lengur til staðar þarf að fara nýjar leiðir til að byggja þennan karakter upp.

Fastmótað hugarfar (e. Fixed mindset) og vaxtarmiðað hugarfar (e. Growth mindset) eru hugtök sem íþróttaþjálfarar ættu að kynna sér. Fastmótað hugarfar einkennist af því að einstaklingurinn telur að gáfur og hæfileikar séu ákvarðaðir við fæðingu og að fljótlega komist hann að því hverju hann sé góður í og hverju hann sé lélegur í. Þessir einstaklingar telja að ekkert geti breytt því hvaða hæfileikum við búum yfir og hvaða hæfileika okkur skortir. Dæmigert viðhorf slíks einstaklings sem æfir handbolta er að hann sé einfaldlega lélegur varnarmaður og að það sé enginn tilgangur í að leggja sig fram um að bæta þann þátt síns leiks. Þessi einstaklingur myndi forðast allar áskoranir sem gætu sýnt fram á hversu lélegur varnarmaður hann sé. Þar með er ljóst að þessi einstaklingur tekur engum framförum sem varnarmaður. Það er ekki vegna þess að hann sé einfaldlega ekki „varnarmannstýpa”, heldur vegna þess að hugarfar hans gerir það að verkum að hann tekst ekki á við neinar áskoranir sem varnarmaður og hann sýnir ekki áhuga á að læra að verða betri varnarmaður. Einstaklingar sem hafa fastmótað hugarfar eru ekki líklegir til að ná árangri. Ástæðan er einföld, rangt hugarfar.

Vaxtarmiðað hugarfar er hugarfar sem einkennist af þeirri trú að gáfur og hæfileikar séu afrakstur vinnu og dugnaðar. Einstaklingar sem hafa þetta hugarfar gera sér grein fyrir því að hæfileikar eru ekki meðfæddir og að til þess að verða góður í  einhverju þarf að leggja mikið á sig. Þessir einstaklingar gera sér líka grein fyrir því að ef þeir leggja mikið á sig við að læra tiltekinn hæfileika þá verða þeir góðir í því. Þetta eru einstaklingarnir sem vita það að mistök eru fyrsta skrefið í áttina að því að verða góður. Þetta eru einstaklingar sem eru ekki hræddir við að takast á við erfiða áskorun, mistakast og reyna við hana aftur þangað til áskorunin er yfirstígin. Þetta eru einstaklingarnir sem eru tilbúnir að leggja á sig meiri vinnu en aðrir og þess vegna eru þetta einstaklingarnir sem ná árangri í íþróttum.

Hugarfar er hægt að þjálfa upp og ætti að þjálfa upp frá fyrstu æfingu. Einstaklingar sem einkennast af fastmótuðu hugarfari geta breytt sínu hugarfari og tekið upp vaxtarmiðaðra hugarfar. Íþróttaþjálfarar ættu að hafa það sem eitt af sínum aðalmarkmiðum að sínir iðkendur tileinki sér vaxtarmiðað hugarfar. Það gera þeir með því að leggja áherslu á að allir geti náð langt með dugnaði, að ekkert sé til sem heiti að vera „náttúrutalent”. Þjálfarar ættu að leggja áherslu á það við iðkendur að mistök séu ekki endastöð heldur upphafsstöð og að næsta skref gangi útá að reyna aftur og aftur og aftur. Ekkert ætti að gleðja þjálfara meira en að sjá iðkendur sína reyna ítrekað að ná tökum á tiltekinni hæfni þrátt fyrir hindranir og mistök. Að reyna aftur, að prófa öðruvísi. Enginn hæfileiki er ungu íþróttafólki mikilvægari en slík þrautseigja og dugnaður. Það er ekki sú 10 ára fótboltastelpa sem getur haldið lengst á lofti sem á eftir að ná lengst, heldur sú 10 ára fótboltastelpa sem æfir sig mest í að halda á lofti.

Nú er kominn tími til að hætta að gráta það að ekki sé lengur hægt að láta börn moka snjó af fótboltavellinum fyrir æfingu og að ungt íþróttafólk hafi það of gott. Nú liggur ábyrgðin hjá þjálfurum. Þeir þurfa að byggja upp sterkan karakter hjá sínum iðkendum. Ef þú ert þjálfari og sérð þinn íþróttaiðkanda vera að leggja sig fram um að gera eitthvað sem hann hefur ekki náð fullkomnu valdi á ennþá ættir þú að hrósa iðkandanum fyrir dugnaðinn og þrautseigjuna. Þú skalt benda iðkandanum á að það að gefast aldrei upp sé sá hæfileiki sem komi íþróttafólki lengst. Þannig stuðlar þú að því að iðkandinn tileinki sér vaxtarmiðað hugarfar. Þannig stuðlar þú að því að iðkandinn verði sterkur karakter sem sé tilbúinn að takast á við erfiðleika, jafnvel án þess að hann þurfi að moka snjó af fótboltavellinum.

Höfundur pistils er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi.

Facebook Comments Box