Viðhorfið – Hugarleikfimi #6 í samkomubanninu
Hver er mikilvægasta breytan í því að ná langt í íþróttum?
Nú ætlum við að kenna ykkur einfalda algebruformúlu, formúluna að því að ná árangri í íþróttum og á öðrum sviðum í lífinu.
Formúlan er eftirfarandi: (Náttúrulegur hæfileiki + Leiðsögn þjálfara) x VIÐHORF = Árangur
Eins og þið sjáið þá er mikilvægast breytan í formúlunni VIÐHORF og því mikilvægasti þátturinn í því að ná árangri í íþróttum. Margirhalda að náttúrulegur hæfileiki, t.d. að vera stór, fljót(ur) eða sterk(ur) sé mikilvægasti þátturinn, eða það að vera með besta þjálfarann og æfa við bestu aðstæðurnar.
Vissulega hjálpa slíkir þættir til en mikilvægasti þátturinn til lengri tíma litið er Viðhorf, það er margfeldis-stuðull á Viðhorfi í formúlunni.
Gott Viðhorf þarfnast æfingar. Það góða er að allir geta haft stjórn á Viðhorfi sínu og æft sig í að þjálfa það upp, það hafa taugavísindin kennt okkur. Það er því algjörlega í ykkar valdi að þjálfa með ykkur mikilvægustu breytuna í því að ná langt í íþróttum.
Æfingin skapar meistarann!
Gott viðhorf
Það eru mörg atriði sem falla undir gott Viðhorf – hér skulum við nefna nokkur:
• Hafa trú á því að manni takist eitthvað þrátt fyrir að það takist ekki í fyrstu tilraun (Gefast ekki upp þótt á móti blási)
• Hafa sjálfstraust til að takast á við áskoranir og prófa nýja hluti
• Tala til sín á jákvæðan og uppbyggilegan hátt (ekki velta sér upp úr mistökum)
• Mæta á réttum tíma á æfingar og leiki
• Alltaf að hugsa um að bæta sig, æfa sig meira en aðrir og gæta að svefni og næringu
• Setja sér markmið, leggja hart að sér við að ná þeim.
• Samgleðjast með liðsfélögum, líka þegar manni sjálfum gekk ekki eins vel og maður vildi. Það er hægt að samgleðjast öðrum en vera á sama tíma svekktur yfir eigin frammistöðu (æfa Viðhorfið góður liðsfélagi).
• Ávallt að bera virðingu fyrir öðrum liðsfélögum, mótherjum og dómurum.
Mundu að Viðhorfið er mikilvægasta breytan í því að ná árangri í íþróttum og því sem þú tekur þér fyrir hendur í lífinu.
Kennsluefnið er hugsað fyrir íþróttafólk og aðstandendur þeirra og er unnið í samvinnu við Sálstofuna, Núvitundarsetrið og Dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur.