Hvernig fæ ég meiri hvatningu í lífinu?
Margir velta fyrir sér hvernig það getur fengið meiri hvatningu í lífinu til þess að leggja hart að sér, temja sér nýjar venjur, fórna skammvinnri ánægju og framfylgja markmiðum til þess að ná meiri árangri og vellíðan í lífinu.
Ertu að gera það sem þú vilt virkilega vera gera?
Margir stefna á eitthvað án þess að vilja það sjálf, jafnvel út af því að foreldrarnir sögðu þeim að gera það eða það var samfélagslega viðurkennt. Þessir einstaklingar ríghalda í þá stefnu þrátt fyrir að þeir finna að hún sé ekki sú sem þeir vilja. Það er hættulegt því það er ansi líklegt að þetta fólk eyði of miklum tíma í að gera eitthvað sem gefur þeim ekkert nema tómarúm.
Hugsanlega viltu ekki stefna á það sama og þú vildir stefna á fyrir þremur árum síðan. Mögulega þarftu að endurskilgreina þína stefnu, þitt gildismat og hvað þú kannt að meta í lífinu. Þú og lífið breytist á ógnarhraða. Það sem þú kannt að meta í dag kunniru eflaust ekki að meta fyrir þremur árum síðan.
Þorðu að breyta sjálfum þér, þinni stefnu, gildismati og daglegum venjum.
Við erum hrædd við að takast á við breytingar því þær innihalda ákveðna óvissu. Það getur verið verið ógnvæjanlegt að breytast og því er fólk ekki endilega tilbúið til að horfa á sjálfan sig því það gæti verið hrætt við það sem það gæti séð.
Við eigum að breytast, annað væri skrítið. Það er ekki gott að staðna. Þú vilt ekki vera sami einstaklingur núna og eftir fimm ár. Þú vilt vera öflugari einstaklingur. Þú vilt þekkja sjálfan þig og aðra betur. Þú vilt nýta lífið í að gera eitthvað göfugt meðan þú ert hér til staðar. Þú vilt stefna á eitthvað sem réttlætir þína tilveru.
Veist þú hver þú ert?
Hafir þú ekki hvatningu í að geta hlutina getur verið að þú ert með markmið byggð á engum grunni og raunveruleikinn er sá að þú byggir ekki hús á sandi. Þú verður að vita hver þú ert, hvað þú vilt standa fyrir, hvað þú kannt að meta í lífinu og hvað þú hefur bennandi ástríðu fyrir. Út frá þeim grunni er hægt að byggja sýn á framtíðina. Þegar þú hefur sterka sýn á framtíðina byggða á góðum grunni þá kemur hvatningin. Þá hættiru að fresta hlutum og að þurfa berja þig áfram.
Þú getur nefnilega ekki barið þig áfram endalaust. Þú getur ekki þrýst þér til að hafa áhuga á einhverju til lengdar. Þú ert ekki húsbóndinn á þínu eigin heimili. Hvað meina ég með því? Við ráðum að mörgu leiti ekki hverju við höfum áhuga á. Við þekkjum þetta öll þegar við erum að lesa eitthvað sem er leiðinlegt. Sama hvað við berjum okkur að vilja finnast þetta efni skemmtilegt þá verður það ekki skemmtilegt.
Auðveldara er að fresta hlutum sem eru leiðinlegir eða gera þá með hangandi haus. Eflaust ertu að fresta hlutunum því að þú ert að stefna á eitthvað sem þú vilt ekki stefna á. Kannski hefuru engan áhuga á að vera gera það sem þú ert að gera. Hugsanlega er það af því að þú veist ekki hver þú ert og veist ekki hvað þú vilt.
Hvað viltu?
Því er mikilvægt að spyrja sjálfan sig hvað maður vill? Hvað vilt þú? – “Ég vil að heilsan mín verði betri”. Næsta spurning er ekki síður mikilvæg: Afhverju viltu bæta heilsuna þína? “Svo ég hafi orku í að elta krakkann minn, verði afkastameiri í vinnunni og líði betur.
Þar á eftir kortlegguru leiðina þangað. Ég ætla að hreyfa mig þrisvar í viku í minnsta kosti klukkutíma. Ég ætla fara í fimm göngutúra í vikunni. Ég ætla að borða 80% hollt og 20% óhollt. Ég ætla að sofa í minnsta kosti 8 tíma á hverri nóttu. Síðan kemuru auga á hindranir og áætlun um hvernig þú ætlar að yfirstíga þær.
Þar á eftir sýniru hlutina í verknaði og verður holdgerfingur hugsana þinna. Þú fylgist með sjálfum þér, skrefi fyrir skrefi. Þegar þú gerir ranga hluti þá uppfæriru þig svo þú gerir ekki sömu mistökin aftur. Ekki refsa þér fyrir ef þú tekur eitt skref út af sporinu heldur hoppaðu beint aftur á teinanna við fyrsta tækifæri.
En ef ég veit ekki hvað ég vil?
En hvað ef ég veit ekki hvað ég vil? Opnaðu augun. Veittu þér sjálfum og lífinu athygli. Með aukinni meðvitund skilur þú lífið betur og áttar þig á hlutum sem þú hafðir ekki hugmynd um. Prófaðu nýja hluti. Taktu eftir augnablikum sem þú ert gjörsamlega sokkinn í og tíminn líður eins og brennandi eldspýta. Það er góð vísbending að þú hafir virkilegann áhuga á því sem þú ert að gera.
Gerðu daginn í dag betri en daginn í gær. Hvað gætir þú gert í dag sem myndi gera tilveruna þína aðeins betri en hún var í gær. Kannski er það að eyða fjórum og hálfum tíma í símaunm í staðinn fyrir að eyða fjórum tímum og fjörutíu mínútum. Kannski er það að taka til heima hjá þér. Kannski er það að hringja í mömmu þína. Kannski er það að heimsækja afa þinn.
Til að taka þetta saman:
Orðaðu hugsun þína að nákvæmni. Skilgreindu hvað þú vilt og hvað þú þarft að gerast til að komast þangað. Gerðu þér grein fyrir afhverju þú vilt það. Sýndu hlutina í verknaði. Fylgstu með sjálfum þér. Uppfærðu mistökin þín. Þorðu að breytast. Þá kemur hvatningin. Þá þarftu ekki að berja sjálfan þig áfram. Þá finnur þú tilgang og ánægju með lífinu.
Höfundur er Beggi Ólafs – www.beggiolafs.com