Hvað er kvíði?
Kvíði er alltaf neikvætt tilfinningalegt ástand ef hann verður of mikill og fram koma líkamleg viðbrögð. Einstaklingar upplifa að þeir þurfi að takast á við ógn hvenær sem er þrátt fyrir að engin raunveruleg ógn sé til staðar og telja sig ekki reiðubúna til þess.
Íþróttamenn sem kljást við kvíða eiga það til að koma sér út úr aðstæðum sem þeim þykja erfiðar. Þeir biðja til að mynda um skiptingar af velli, draga sig í hlé eða æfa óeðlilega mikið.
Felmtursröskun (e. panic disorder) einkennist af kvíðaköstum (e. panic attacks) sem innihalda mikinn kvíða. Þau geta komið skyndilega og magnast upp á skömmum tíma eða ef einstaklingur fer í aðstæður sem honum líður illa í og getur þá fyrirfram búist við kasti.
Einkenni felmtursröskunnar eru hraður hjartsláttur, sviti, skjálfti, hröð öndun, köfnunartilfinning, brjóstverkur, ógleði, svimi, hitabreytingar, doði, óraunveruleikatilfinning, hræðsla við að missa stjórn og hræðsla við að deyja.
Tíðni og styrkur kvíðakastanna er breytilegur og einstaklingsbundinn. Það geta liðið nokkrar vikur á milli þeirra hjá sumum en þau geta komið daglega hjá öðrum.