Ert þú skuldbundin gagnvart íþróttinni þinni?
Ákveðnir sálfræðilegir þættir hafa greint þá sem náð hafa afreks árangri í íþróttum frá öðrum. Afreksíþróttamenn eru tilbúnari til að skuldbinda sig íþróttinni, kunna að nota markmiðssetninguog sjálfstal, beitaskynmyndaþjálfun, eru einbeittari og notast við áætlanir fyrir keppni og á meðan keppni stendur yfir.
Meiri tíma er varið í hugræna þjálfunog undirbúning hjá þeim sem skara framúr. Þá búa afreksíþróttamenn einnig yfir meira sjálfstrausti og hvatningu en aðrir en þetta eru allt þættir sem umhverfi íþróttamannanna hefur átt stóran þátt í að skapa.
Skuldbinding hefur verið skilgreind sem sálfræðilegt fyrirbæri yfir þá löngun og framlag sem einstaklingur er tilbúinn að leggja á sig til að halda áfram að stunda íþróttir.
Hversu skuldbundinn einstaklingur er íþróttinni sinni hefur verið rannsakað með því að skoða ákveðna hegðunarþætti eins og að mæta vel á allar æfingar, leggja sig fram og að æfa í frítímanum utan hefðbundins æfingatíma.
Ánægja af því að stunda íþróttina, tækifæri sem fást aðeins með viðvarandi þátttöku, félagslegar væntingar annarra og félagslegur stuðningur frá öðrum eru allt þættir sem geta aukið þá skuldbindingu sem einstaklingur er tilbúinn til að gera gagnvart íþróttinni.
Skuldbinding íþróttamanna er einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á það hvort þeir nái markmiðum sínum. Þá getur viðeigandi markmiðssetning ýtt undir áhuga og gleðina sem felst í því að æfa íþróttir og hjálpað þannig til við að auka skuldbindingu iðkenda.
Greinin er úr lokaverkefni Arnars Ragnarssonar í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.