Stefnir þú á fullkomnun?
Það er verðugt markmið að vilja leggja sig fram um að ná góðum árangri og stefna á háleit markmið en þegar árangursþörfin breytist í fullkomnunaráráttu getur hún leitt til óöryggis og dregið úr frammistöðu okkar og lífsgæðum. Rannsóknir á fullkomnunaráráttu sýna að hún hefur í för með sér aukna streitu og kvíða. Fullkomnunarárátta getur leitt til kulnunar í starfi sem einkennist af neikvæðu vinnutengdu hugarástandi, mikilli streitu, langvinnri þreytu og minni afköstum, sem er andstætt hugmyndinni um að fullkomnunarsinnar nái meiri árangri.
Fullkomnunaráratta myndast oft á æskuárunum. Ungt fólk í dag elst upp í heimi sem leggur mikla áherslu á samkeppni og það að skara fram úr. Ef foreldrar eru t.d. of metnaðarfull fyrir hönd barnanna sinna eða gagnrýna þau um of getur það haft þær alvarlegu afleiðingar að börnin þrói með sér þá hugmynd að þau séu óverðug eða misheppnuð ef þau standast ekki væntingar foreldranna. Hins vegar eru börn sem fá of mikið hrós eða eru ofdekruð af foreldrunum líklegri til að upplifa sjálfshrifningu, aukið óöryggi og vanlíðan auk þess sem frammistaðan verður síðri. Á bak við fullkomnunaráráttu er yfirleitt lágt sjálfsmat.
Þegar við upplifum að við séum ekki nógu góð leitum við leiða til að vekja athygli og fá viðurkenningu, oft með því að reyna að skara fram úr í einhverju eða ná fullkomnun. Þörfin fyrir að erfiða er oft ekki innan skynsamlegra marka og getur skapað mikla spennu og sektarkennd. Samt erum við stöðugt óánægð með árangurinn, því það er jú alltaf hægt að gera betur.
Hér fyrir neðan eru nokkrar birtingarmyndir fullkomnunaráráttu:
- Þú vinnur ekki verkefni eða þorir ekki að taka ábyrgð af ótta við að standa þig ekki nóg vel.
- Þú frestar verkefnum eða ýtir þeim á undan þér vegna þess að þú vilt hafa þau pottþétt.
- Þú átt erfitt með að ljúka við verkefni af því að þú þarft stöðugt að bæta það og breyta.
- Þú hræðist að prófa nýja hluti.
- Þú getur allt sjálf(ur) í stað þess að dreifa verkefnum til að tryggja að þau séu almennilega unnin.
- Þú hefur sífelldar áhyggjur af því að standa þig ekki nógu vel, alveg sama hversu mikið þú leggur þig fram.
- Þegar þú færð gagnrýni þótt uppbyggileg sé finnst þér þú hafa mistekist eða skammast þín.
- Þú kennir sjálfum/sjálfri þér um ef eitthvað fer úrskeiðis.
- Þér finnst enginn vera nógu fullkominn og átt þar af leiðandi fáa vini.
- Þú lætur galla annarra fara í taugarnar á þér og gerir miklar kröfur til þeirra.
- Þú biður ekki um hjálp því það er merki um veikleika.
- Þér finnst erfitt að taka jafnvel einfaldar ákvarðanir.
- Þú vilt vera best(ur) í því sem þú tekur þér fyrir hendur frá fyrsta degi.
- Þú eyðir of miklum tíma og orku í verkefni.
- Þú ert upptekin(n) af því hvað öðrum finnist um þig.
- Þú segir ekki það sem þú hugsar því þú gætir sagt eitthvað vitlaust.
Fullkomnunarárátta getur verið mjög hamlandi þar sem okkur finnst við aldrei vera nógu góð, dugleg og klár. Við þurfum sífellt að skara fram úr og finnst við ekki mega klikka á neinu. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að sigrast á fullkomnunaráráttu:
- Fyrsta skrefið er að viðurkenna að þú ert haldin(n) fullkomnunarárátta og að hún færi þér fjær árangri.
- Skoðaðu hverjir styrkleikar þínir eru og einblíndu á þá. Við búum jú öll yfir hæfileikum.
- Leyfðu þér að vera þú sjálf(ur) í öllum þínum ófullkomleika í stað þess að vera upptekin(n) af því hvað öðrum finnist.
- Settu þér viðráðanleg markmið byggð á eigin þörfum og því sem þú hefur áorkað hingað til. Þetta gerir þér kleift að ná árangri og bæta sjálfsálitið.
- Settu þér ný og aðeins meira ögrandi markmið um leið og þú nærð fyrri markmiðum.
- Gerðu tilraunir með mismunandi viðmiðanir fyrir árangur. Veldu verkefni og reyndu að gera það 90%, 80% eða 70% í stað 100%. Þetta getur hjálpað þér við að átta þig á því að heimurinn ferst ekki þó að þú náir ekki 100%.
- Reyndu að meta árangur þinn ekki aðeins með tilliti til útkomunnar heldur einnig með tilliti til hve mikla ánægju þú hafðir af verkefninu.
- Spurðu sjálfa(n) þig hvort þú gerir mögulega óraunhæfar væntingar til sjálfs/sjálfrar þín.
- Spurðu sjálfa(n) þig spurninga á borð við: “Hvað óttast ég mest” og “Hvað er ég smeyk(ur) við?” til að takast á við mögulegan ótta.
- Gerðu þér grein fyrir því að margir jákvæðir hlutir lærast aðeins með því að gera mistök. Veltu fyrir þér hvað er hægt að læra af þeim mistökum sem þú hefur gert.
- Forðastu allt-eða-ekkert hugsun. Það að ná ekki hámarksárangri þýðir ekki að þú sért vonlaus eða misheppnaður/-heppnuð.
- Sýndu velvild í eigin garð í stað þess að dæma þig eða rakka þig niður.
Fullkomnunarárátta er ekki gagnleg né nauðsynleg. Það er heilsuvænlegra að setja sér viðráðanleg og raunhæf markmið. Þú munt ekki aðeins ná meiri árangri heldur einnig líða betur í leiðinni.