Hvað eru sterar?
Að undanförnu hefur athygli manna einkum beinst að misnotkun vefaukandi stera (anabol stera) en ekki má gleyma að fjölmörg önnur lyf koma við sögu. Sumir velta því nú fyrir sér hvort hér sé um að ræða upprennandi heilbrigðisvandamál sem komi til með að hellast yfir okkur eftir fáeina áratugi, þegar þeir sem eru að misnota þessi lyf nú verða komnir á miðjan aldur og þar yfir.
Vefaukandi sterum má skipta gróft niður í tvo flokka:
1) lyfjum sem er sprautað í vöðva og innihalda oftast testósterón og
2) lyf sem eru tekin inn sem töflur og innihalda oftast efni sem eru skyld testósteróni.
Ekki er munur á aukaverkunum þessara tveggja flokka og eru ýmsar vel þekktar:
Kynfæri:
Hjá karlmönnum dregur úr myndun sæðisfrumna eða
hún stöðvast alveg og eistun minnka. Konur fá óreglulegar blæðingar eða
að blæðingar stöðvast alveg, snípurinn stækkar og þær verða dimmraddaðar
það sem eftir er ævinnar.
Lifur:
Ýmsar breytingar verða á lifrarstarfsemi sem lítið er vitað um frekar en einstaka sinnum verður gallstífla með gulu.
Efnaskipti:
Sölt og vökvi safnast fyrir í líkamanum og
margir taka þvagræsilyf til að koma í veg fyrir bjúg. Heildarmagn
kólesteróls í blóði breytist lítið en hlutfall mismunandi tegunda
kólesteróls verður óhagstætt þannig að það stuðlar að æðakölkun.
Sykurþol minnkar en sykursýki er sjaldgæf.
Húð:
Næstum allir fá gelgjubólur. Konur fá aukinn hárvöxt í
andliti og víðar á líkamanum. Karlmenn fá brjóstastækkun sem er svo
illa séð af vaxtarræktarmönnum að þeir leita iðulega til lýtaskurðlækna.
Líkamsvöxtur:
Þegar slík lyf eru tekin af ungu fólki sem
enn er að vaxa má gera ráð fyrir að vaxtarlínur beina lokist og þar með
sé tekið fyrir allan frekari vöxt.
Hjarta og blóðrás:
Á síðustu 10 árum er vitað með vissu um
14 tilfelli í heiminum (raunverulegur fjöldi er vafalítið margfalt
meiri) þar sem kraftlyftingamenn og vaxtarræktarmenn sem notuðu
vefaukandi stera fengu alvarleg hjartaáföll eða slag. Þarna er sennilega
um að ræða samspil óæskilegra áhrifa lyfjanna á æðaveggi, blóðstorku og
blóðflögur. Þar að auki ber að hafa í huga að með því að hækka
blóðþrýsting og hafa óæskileg áhrif á blóðfitu geta þessi lyf flýtt
fyrir æðakölkun.
Geð:
Aukin árásarhneigð notenda vefaukandi stera er vel
þekkt fyrirbæri. Sumir verða einnig andlega háðir lyfjunum, fara að
hegða sér undarlega eða verða geðveikir. Í nokkrum tilvikum hafa fundist
tengsl milli notkunar þessara lyfja og afbrota.
Krabbamein:
Vissar grunsemdir eru um að vefaukandi sterar geti valdið krabbameini í lifur, blöðruhálskirtli eða ristli, en þetta er engan veginn sannað.
Greinin birtist fyrst á doktor.is