Hvað er fita?
Fita er orkuríkasta næringarefnið og eru flest fituefni byggð úr glýseróli og fitusýrum. Líkaminn getur sjálfur framleitt flestar fitusýrur, en tvær þeirra verður hann að fá úr fæðunni og eru þær kallaðar lífsnauðsynlegar fitusýrur. Þeirra er aðeins þörf í litlu magni, sem fæst auðveldlega úr réttu mataræði, einkum ef lýsi er tekið inn og feitur fiskur og heilt korn er borðað reglulega.
Fituefni eru mikilvæg fyrir margvíslegalíkamsstarfsemi og við upptöku á fituleysanlegu vítamínunum A, D, E og K. Fita skiptist í mettaða og ómettaða fitu á grundvelli byggingar fitusýranna. Mettaða fitu er að finna í kjöti, eggjarauðum, smjör, smjörlíki, mjólk og mjólkurafurðum enómettaða fitu í fiski og afurðum jurtaríkisins t.d. korni, hnetum og jurtaolíu. Kólesteról fylgir mettaðri fitu, en hátt kólesterólmagn í blóði er einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Að jafnaði ættu ekki meira en 25-30% orkunnar að koma úr fitu og ekki meira en10% úr mettaðri fitu.
Fita er helsti orkugjafi líkamans við dagleg störf og við vinnuálag allt að 50-60% af hámarksálagi. Við mikið álag koma aðeins um 10% orkunnar úr fitu en 90% úr kolvetnum. Þetta er vegna þess að líkaminn á auðveldara með að vinna orku úr kolvetnum en fitu og þarf til þess um 10% minna súrefni. Þó fita sé mikill orkugjafi er fituríkt fæði ekki talið æskilegt fyrir íþróttafólk. Fituríkt fæði getur valdið aukinni líkamsfitu sem dregur gjarnan úr árangri og setur aukið álag á liði og liðamót. Auk þess tengist há líkamsfita hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, háþrýstingi og jafnvel krabbameini.
Fitusnautt fæði er fljótmeltara en fituríkt sem gerir það að verkum að hægt er að stunda æfingar og keppni fyrr eftir fitusnauða máltíð en fituríka. Fitusnautt fæði er loks hlutfallslega ríkara af kolvetnum en fituríkt fæði, en kolvetni eru sem fyrr segir helsti orkugjafi íþróttafólks. Gott er að temja sér að nota mjúkt viðbit til að smyrja brauðmeti og nota rapsolíu eða ólifuolíuvið steikingu og bakstur.
Greinin birtist fyrst í bækling um næringu íþróttafólks á www.isi.is