Vaxtarhraði barna og unglinga
Vaxtarhraðinn er mismunandi mikill á hinum ýmsu aldursskeiðum. Öllum börnum er sameiginlegt að eiga sér tvö tímabil þar sem vaxtarhraði þeirra er greinilega mestur. Hér er um að ræða tvö fyrstu æviárin og gelgjuskeiðið.
Eftir 6 ára aldurinn er vaxtarferlið hægfara um tíma. Fram að 10 ára aldri eru drengir og stúlkur álíka há. Hjá flestum stúlkum eykst vaxtarhraðinn milli 10 og 13 ára aldurs meðan tilsvarandi hraði á sér nokkuð seinna stað hjá drengjunum, venjulega milli 12 og 16 ára aldurs. Lengdaraukning um 10 – 12 cm á ári er síður en svo óvenjuleg. Mismunur á aldursskeiðum fyrir hámarkslengdarvöxt hjá drengjum og stúlkum er um 2 ár.
Í hópi jafnaldra er oft unnt að greina mikinn stærðarmun. Þannig geta sumar stúlkur á 14 ára aldri þegar hafa tekið út vöxt sinn meðan margir drengir í sama aldurshópi hafa enn ekki byrjað vaxtaraukninguna sem fylgir gelgjuskeiðinu.
Þar sem lengdarvöxturinn og annar þroski fylgjast oft að, veldur það miklum mismun á stúlkum og drengjum bæði varðandi vöxt og þroska. Stúlkurnar virðast talsvert betur þroskaðar og hafa öðlast önnur áhugamál meðan drengirnir eru ennþá ,,í barnsskónum”. Mestur er munurinn hjá þrettán ára aldrinum, sem svarar til 8.bekkjar grunnskólans.
Eftir gelgjuskeiðið dregur verulega úr vextinum uns honum er að fullu náð, að jafnaði á 16 ára aldri hjá stúlkum og á 19 ára aldri hjá drengjum. Meðan á líkamsvextinum stendur breytist ennfremur hlutfall milli hinna ýmsu hluta líkamans. Ýmis líffæri og vefir þroskast á hinum ýmsu aldursskeiðum. Í frumbernsku er höfuðið talsvert stór hluti af heildarlengd líkamans.
Meðan á lengdarvextinum stendur flyst þyngdarpunktur líkamans nokkuð til þessa verður einkum vart þegar vöxturinn er hraður.
Leiðrétta verður ýmsar lærðar hreyfingar og jafnvægisatriði þannig að þær verði mjúkar og samræmdar. Að kenna samsett hreyfingaratriði á of ungum aldri gæti því síðar haft ákveðin, neikvæð áhrif.
Hinn hraði lengdarvöxtur veldur því einnig að hreyfingar sem unglingurinn hafði áður gott vald á geta á vissum tímabilum orðið talsvert erfiðari. Unglingarnir hafa ekki fullt vald á líkamanum. Sem leiðbeinandi mátt þú ekki meta slíkan ,,klaufaskap” sem afturför eða minnkandi vilja. Líttu heldur raunhæft á málin þ.e. hraðan lengdarvöxt með breyttum hreyfingarmynstrum.
Líffæri líkamans þroskast mishratt á mismunandi tímabilum. Líkaminn getur ekki þroskast allur á sama tíma, heldur ,,blundar” viss starfssemi og líffæri meðan önnur starfssemi tekur örum framförum.
Hver einstaklingur fylgir ákveðinni þroskaáætlun en þroskastigin birtast á mismunandi aldursskeiðum.
Lengdarvöxturinn er greinilegastur á bolnum. Fætur ná yfirleitt fullum vexti um það bil ári á undan bolnum. Síðast ná axlir og brjóstgrind fullum vexti. Drengir vaxa sem sé uppúr buxum sínum (a.m.k. á lengdina) um einu ári áður en jakkinn verður of lítill.
Í flestum tilvikum fá drengirnir greinilegri vaxtarkippi. Á hinn bóginn vaxa mjaðmir stúlkna hraðar – skref í þroska konu og væntanlegrar móður. Þessi hraði í þroska mjaðmagrindarinnar gæti haft áhrif á tækni í vissum greinum íþrótta þar sem hreyfing mjaðma skiptir máli t.d. í ballett, göngu, grindahlaupi og fimleikum.
Þroski taugakerfisins er hraður fyrstu 6 árin en minnkar síðan greinilega. Þetta þýðir þó ekki að þroskinn stöðvist.
Vöxtur líkamsvefja, t.d. beina, vöðva og öndunarfæra á sér tvö greinileg vaxtarskeið. Annað á sér stað á tveim fyrstu árunum en hitt á gelgjuskeiðinu.
Kynþroskinn og lengdarvaxtarkippurinn verða á gelgjuskeiðinu. Hjá drengjum er þetta tímabil á 13 – 14 ára aldrinum. Kynfæri karla vaxa hratt, hárvöxtur eykst og röddin breytist. Hjá stúlkum er gelgjuskeiðið fyrr á ferðinni og hafa þær fyrst á klæðum (tíðir) um 13 ára aldur. Hér er þó mikilll munur á einstaklingum. Stúlkur hafa almennt tilhneigingu til að hafa á klæðum talsvert fyrr.
Stúlkur sem hafa áhyggjur af því að verða of háar geta huggað sig við það að lengdarvexti þeirra lýkur þegar þær hafa fyrst á klæðum.
Líkami drengjanna fær grófar og kröftugar útlínur meðan stúlkurnar verða mjúkarog ávalar í vaxtarlagi.
Aukinn árangur á íþróttasviðinu fer að miklu leyti eftir vexti unglinganna. Þ.e. armar og fætur mynda lengri vogarstangir og eins stækka hjarta og lungu. Þegar vexti lýkur byggist árangursaukningin á þjálfun. Þetta felur í sér að stúlkur á 16 ára aldri eiga erfiðara með að auka árangur sinn en piltar á sama aldri. Þær eru enn í vexti. Þetta skýrir e.t.v. að tiltölulega fleiri stúlkur hætta íþróttaiðkun á þessum aldri.
Greining birtist fyrst í fræðubækling ÍSÍ.