Þrjár tegundir styrks

Líkamlegur styrkur er mjög mikilvægur almennri hreysti einstaklinga og er forsenda þess að þeir geti framkvæmt aðra líkamlega getu eins og kraft, snerpu, hraða og stöðugleika. Ef einstaklingur er ekki með hlutfallslega réttan styrk þá getur það leitt til takmarkaðrar getu að öðru leyti. Þá er styrkur jafnframt mikilvægur fyrir hreyfanleika liðamóta en ójafnvægi í
vöðvastyrk getur leitt til takmarkaðrar hreyfigetu þeirra.

Styrkur telst vera „mesti kraftur sem vöðvi eða vöðvahópar geta myndað í tilgreindu hreyfingarferli á tilgreindum hraða hreyfingarinnar“. Á sviði íþrótta er styrkurinn, sé hann til staðar, lykilþáttur í að auka líkamlega frammistöðu auk þess sem hann minnkar líkurnar á meiðslum.

Til eru margar tegundir af styrk og eru þær oft á tíðum settar undir sama hatt. Hér verða þó aðeins nefndar þrjár helstu tegundirnar en hafa verður þó í huga að mun fleiri tegundir eru fyrir hendi.

Grunnstyrkur

Grunnstyrkur er undirstaða allrar styrktarþjálfunar og kemur í veg fyrir aukna meiðslahættu. Í upphafi þjálfunar er aðaláherslan lögð á umræddan styrk þar sem verið er að þróa styrkinn í heild sinni. Þá undirbýr grunnstyrkurinn líkamann fyrir þau erfiðari stig styrktarþjálfunar sem
á eftir koma

Sérhæfður styrkur

Sérhæfður styrkur er sá styrkur sem felur í sér styrk þeirra vöðva og vöðvahópa sem notaðir eru í einni ákveðinni íþrótt. Sú styrktarþjálfun, sem íþróttamenn stunda, er sniðin sérstaklega að þeirri íþrótt sem um ræðir og einblínir á að styrkja þá vöðva sem auka frammistöðu þeirra í íþróttinni. Því er ekki hægt að bera saman styrk milli mismunandi íþróttagreina þar sem ekki er um sama styrk að ræða.

Þegar grunnstyrkstímabilinu lýkur er ákjósanlegt að íþróttamenn einblíni á sérhæfðan styrk með því að bæta sérhæfðri styrktarþjálfun inn í þjálfun sína

Hámarksstyrkur

Hámarksstyrkur er „hámarkskraftur sem vöðvi eða vöðvahópar geta framleitt í ákveðinni æfingu til að lyfta ákveðinni þyngd einu sinni“. Þegar talað er um hámarksstyrk er oft er vísað til einnar endurtektar hámarks (1RM) eða 100% af hámarkinu. Hann er undirstaða útreiknings þyngdar sem notuð er við styrktarþjálfun en hann stuðlar að því að rétt hlutfall þyngdar sé notað í hverri æfingu. Af þeim sökum þurfa þeir sem stunda
styrktarþjálfun að vita hver hámarksstyrkur þeirra er í hverri æfingu svo hægt sé að fá sem mest út úr þjálfuninni.

Facebook Comments Box