Leiki grunur á heilahristingi skal grípa inn í
Höfuðáverkar í afreksíþróttum hafa því miður verið nokkuð áberandi á síðustu árum hérlendis. Lykilmenn í landsliðum Íslands hafa þurft á leggja skóna á hilluna og margir fleiri hafa þurft að taka sér frí frá íþróttaiðkun sinni.
Sums staðar erlendis hefur einnig verið töluverð umfjöllun um höfuðáverka og til dæmis í Bandaríkjunum hefur orðið mikil vakning. NHL-deildin í íshokkíi herti til að mynda mjög refsingar á brotum þar sem leikmaður fær högg á höfuðið, og í einhverjum ríkjum þar vestra er hægt að lögsækja þjálfara fyrir að láta leikmenn spila í háskólaíþróttunum ef þeir eru með einkenni heilahristings.
Morgunblaðið hafði samband við Reyni Björnsson heimilislækni sem starfað hefur töluvert í íþróttahreyfingunni. Reynir hefur verið læknir fótboltalandsliðanna og hefur einnig átt sæti í lyfjaráði ÍSÍ. Morgunblaðið spurði Reyni hvort vakning ætti sér stað hérlendis vegna höfuðáverka í íþróttum?
„Það er viss vakning og sérstaklega eftir að dæmunum fjölgaði í boltagreinunum. Ég vinn fyrir KSÍ og get ekki talað fyrir hönd annarra en við gerðum ákveðnar leiðbeiningar í fyrra. Við hugsuðum þær fyrir fótboltann en hægt væri að yfirfæra þær á fleiri greinar. Hópur sérfræðinga úr heilbrigðisgeiranum hefur komið saman úti í heimi frá árinu 2004. Þar eru einnig fulltrúar frá Alþjóðaólympíunefndinni, alþjóða- og evrópska knattspyrnusambandinu. Frá þessum hópi hafa komið leiðbeiningar frá árinu 2004 og hópurinn hittist á fjögurra ára fresti til að endurbæta. Hópurinn hefur birt grein í framhaldinu í British Medical Journal þar sem sagt er frá leiðbeiningum varðandi höfuðáverka. Er það kallað Scat 3 sem stendur fyrir Sport Concussion Assessment Tool. Við unnum okkar leiðbeiningar upp úr efni frá hópnum.“
KSÍ hefur í ríkari mæli veitt þessu vandamáli athygli sem höfuðáverkar eru. Nú er til að mynda aukin fræðsla um slíkt í þjálfaranámskeiðum hjá KSÍ. Auk þess hafa verið haldnir fyrirlestrar og hefur Reynir komið að þeim. Hann segir að viðbrögðin mættu vera meiri í hreyfingunni. „Við höfum haldið fyrirlestra fyrir lækna KSÍ og sjúkraþjálfara innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Auk þess var haldinn súpufundur sem var opinn öllum en einkum stílaður á þjálfara. Mætingin hefði mátt vera betri.“
Lærdómur dregin af atviki á EM 2009
Nokkur dæmi eru um öflugar íslenskar landsliðskonur í bæði fótbolta og handbolta sem hafa lagt skóna á hilluna vegna höfuðáverka á undanförnum árum. „Dæmin eru mörg kvennamegin. Konur eru viðkvæmari og sumir segja að þær séu jafnvel sjálfstæður áhættuþáttur en hópurinn hefur ekki viljað ganga svo langt. Ef konur fá einkenni heilahristings þá virðast þær vera lengur að ná sér,“ sagði Reynir sem var í för með kvennalandsliðinu í lokakeppni EM í Finnlandi árið 2009. Þar fékk Guðrún Sóley Gunnarsdóttir þungt höfuðhögg í fyrsta leik. Skömmu síðar fékk hún fleiri höfuðhögg með liði sínu Djurgården í Svíþjóð. Bjó hún við nær látlausan höfuðverk árin á eftir en Guðrún sagði Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sögu sína 30. september 2012. Reynir segir það atvik sitja í sér enn þann dag í dag og hafi hann í kjölfarið reynt að stuðla að því að slíkt endurtaki sig ekki. „Við unnum eftir þessum leiðbeiningum að hluta til þegar Guðrún Sóley lenti í þessu. Hún var klárlega með ákveðin einkenni en á þeim tíma var heilahristingi skipt niður í flókinn og einfaldan. Ef við hefðum farið algjörlega eftir leiðbeiningunum í því tilfelli þá hefði hún farið út af gegn Frakklandi og ekki spilað meira í mótinu. Í framhaldinu fékk hún þrívegis heilahristing úti í Svíþjóð á innan við mánuði. Við skrifuðum Svíunum bréf þar sem við lögðum áherslu að hún fengi tíma til að ná sér en þeir fóru ekki eftir þeim ráðleggingum og sögðu á móti að við hefðum látið hana spila á EM eftir höggið. Þetta er að mörgu leyti dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina og þetta kveikti svolítið í mér að standa betur að þessu en við lærðum mikið á þessu ferli. Mér fannst þetta ofboðslega leiðinlegt og við misstum einn besta leikmann okkar frá upphafi.“
Lágmarkshvíld frá keppni er vika
Gera má ráð fyrir því að leiðbeiningarnar sem nú er hægt að nálgast hjá KSÍ séu virkilega gott innlegg í fræðsluna um höfuðáverka í íþróttum og hvernig skuli bera sig að. Gætu þær reynst sjúkraþjálfurum dýrmætar þegar taka þarf af skarið í miðjum leik. „Ég ætla ekki að halda því fram að leiðbeiningar okkar séu fullkomnar en þær ættu að hjálpa þeim sem eru að þjálfa íþróttafólk og krakka. Ekki eru alltaf læknar til staðar og leiðbeiningarnar ættu að geta hjálpað sjúkraþjálfurum að taka ákvarðanir. Ef grunur leikur á að um heilahristing sé að ræða þá fer leikmaðurinn ekki aftur inn á völlinn. Viðkomandi spilar ekki aftur fyrr en búið er að trappa upp æfingaálagið og sjá hvort íþróttamaðurinn þoli það. Einkennin eru ekki bara höfuðverkur og ógleði. Hugsa þarf út í það að sum einkenni koma seinna í ferlinu. Síðar geta komið upp vandamál með einbeitingu, ljósfælni, hljóðfælni og ýmislegt fleira. Ef skammur tími líður á milli höfuðhögga þá getur það leitt til varanlegrar örorku og í tilfelli barna gæti það verið lífshættulegt. Leikmenn vilja spila en við viljum ekki fá annan nýjan höfuðáverka áður en þú hefur jafnað þig á hinum. Það er aðalatriðið í þessu,“ útskýrði Reynir og hann telur einnig mikilvægt að ferlið sem tekur við sé í takti við leiðbeiningarnar.
„Í Scat 3 er einnig að finna leiðbeiningar um hvaða undirbúningur er æskilegur áður en íþróttamaður sem fær heilahristing getur snúið aftur til keppni. Við settum inn að karlar og konur eldri en 19 ára með einkenni heilahristings, spili ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir viku og að því gefnu að viðkomandi þoli æfingaálag áður. Viðkomandi þarf að vera alveg einkennalaus á öðrum degi og þola alla upptröppun á álagi fram að keppni. Auk þess þarf fólk að fá hvíld frá ýmsu áreiti, eins og tölvum. Varðandi krakka yngri en 19 ára þá höfum við þetta viðmið hálfan mánuð. Sumir telja að það eigi að vera mánuður og því er æskilegt að fylgjast mjög vel með krökkum og unglingum í þessari stöðu, meðal annars með tilliti til náms. Í mínum fyrirlestrum hef ég lagt áherslu á að læknar og sjúkraþjálfarar íþróttaliða ræði þessi mál við þjálfarana. Við höfum lagt þá línu að ef grunur leikur á heilahristingi þá fari leikmaðurinn ekki aftur inn á. Það á að vera á hreinu,“ sagði Reynir Björnsson ennfremur við Morgunblaðið.
Greinin birtist á www.hugarfar.is