Helgarviðtalið við Heimi Hallgríms

Heimir tekur á móti okkur á heimili sínu í Reykjavík á þriðjudagskvöldi, réttum sólarhring eftir að hann stóð úti á miðjum Laugardalsvelli undir húrrahrópum og flugeldasprengingum að fagna sæti landsliðsins á HM. Án efa hefur mikið gengið á hjá honum síðasta sólarhringinn, áfanganum var fagnað fram á nótt og væntanlega hefur síminn hringt látlaust hjá honum allan daginn.  Heimir er þó allur hinn rólegasti, mætir okkur með bros á vör, býður okkur kaffi og við komum okkur fyrir. Við leggjum línurnar um hvað við viljum spjalla, að við viljum fá að kynnast bakgrunni Heimis betur og reyna eins og hægt er að tala ekki bara um fótbolta. Við erum ekkert að flækja hlutina, byrjum á byrjuninni og fáum hann til að rifja upp æskuárin. Heimir er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hefur aldrei slitið ræturnar þaðan. Hann er yngstur í stórum systkinahópi og minnist æskuáranna með hlýju.

Það var frábært að alast upp í Vestmannaeyjum. Fjölskyldan var einstaklega samheldin en það var líka mikið keppnisskap innan hennar. Við bræðurnir spiluðum til dæmis oft fótbolta í ganginum heima sem endaði alltaf með því að ég fór að grenja. Þórður bróðir, sem er 15 árum eldri en ég og spilaði þá með meistaraflokki, hann leyfði mér aldrei að vinna. Mamma skammaði hann stundum fyrir það.

En svo er bara svo mikið frelsi að vera krakki í Eyjum, ég held að það móti mann svolítið sem persónu. Ég átti marga vini og var mikið með félögunum, alltaf eitthvað að sprikla í fótbolta og öðrum íþróttum. Á þeim tíma voru hverfalið sem áttust við úti um allan bæ og það gekk eiginlega allt út á að vera eitthvað í kringum fótboltann.

En skólinn, var það aukaatriði eða varstu duglegur?

Nei, ég var nú bara svona sjöa í gegnum allan skólaferilinn. Var ekki með neitt sérstaklega mikinn metnað fyrir náminu. Ég kláraði framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, ég held að það hafi verið skemmtilegast af öllu. Það var svo mikið félagslíf í skólanum að ég hugsa að ég hefði ekki dugað í háskóla ef ég hefði tekið þessi fjögur ár alvarlega eins og ég þurfti svo að gera í háskólanum. Ég kom eiginlega úthvíldur í háskólann þegar aðrir voru kannski sprungnir af lærdómi.

Ætlaði í tölvunarfræði en varð tannlæknir

Ég ætlaði í tölvunarfræði, ég hafði svolítið gaman af tölvum. Svo fékk ég bækur frá mági mínum sem er kerfisfræðingur og fór að lesa þær til að undirbúa mig. Þær hins vegar voru svo þurrar og þungar með erfiðri stærðfræði að ég hætti við á miðri leið. Þá var Gunnar Leifsson vinur minn að fara í tannlæknanám þannig að ég skráði mig með honum með það í huga að skipta um nám þegar ég vissi betur hvað ég ætlaði að læra. En þetta var bara þrælfínt svo ég skipti ekkert og kláraði námið.

Byrjaði að þjálfa af því hann var svo lítill

Heimir æfði fótbolta upp alla yngri flokka en hætti þegar hann var kominn í 2. flokk.

Ég hætti að æfa 17 ára gamall og æfði ekki í tvö ár. Ég var svo lítill og stækkaði svo seint, að ég taldi mig ekki eiga möguleika að fá að spila með öðrum flokki ÍBV, hann var svo sterkur á þeim tíma. Þannig að þá fór ég að þjálfa og ég féll fyrir því strax. Á þeim tíma höfðu Eyjamenn ráðið Pólverjann Gregor Bielatowicz sem yfirþjálfara yngri flokka. Auk þess var ákveðið að ráða unga þjálfara til að aðstoða hann og læra af honum. Ég var ráðinn sem einn af þessum ungu og varð hugfanginn af þessum manni og þeim aðferðum sem hann beitti við þjálfun. Það skipti hann til dæmis engu máli hvort leikmaður var lítill eða stór eða hvernig leikurinn fór, hann var bara að hugsa um að búa til betri leikmenn.

Heimir vann með Gregor í tvö ár og þjálfaði yngstu flokkana. Á sama tíma tók hann vaxtarkipp og ákvað að byrja aftur að æfa fótbolta, þá á elsta ári í öðrum flokki.

Þá varð kallinn alveg brjálaður. Þá sá hann fyrst að ég gat eitthvað í fótbolta og að ég var búinn að hanga í tvö ár utan vallar á meðan ég hefði getað verið að æfa undir hans stjórn. Það fannst honum alger sóun enda hefði ég einmitt verið kjörið verkefni fyrir hann sem leikmaður.

Leyndur markaskorari

Það rættist því úr Heimi sem leikmanni og ferill hans í meistaraflokki spannar u.þ.b. 20 ár, frá 1986 til 2005. Hann lék rúmlega 100 leiki, flesta fyrir ÍBV, en samkvæmt skráningu leikjanna tókst honum aldrei að skora mark á ferlinum. Við spyrjum Heimi hvort að það geti virkilega staðist.

Sko, það voru ekki komnar tölvur á þeim tíma þannig að þetta hefur eflaust verið slegið eitthvað vitlaust inn, segir Heimir og hlær en viðurkennir svo að hann hafi aldrei skorað mark. Ég var ekki einu sinni nálægt því.

Heimi til varnar þá spilaði hann lengst af sem aftasti varnarmaður með ÍBV. Hann vill þó meina að þegar hann skipti í neðrideildarliðið KFS hafi hinn skeleggi þjálfari Hjalti Kristjánsson séð í honum leyndan markaskorara og að þar hafi Heimir raðað inn mörkum. Blaðamönnum DV tókst ekki að finna staðfestingu á því og verðum við því að taka orð Heimis fyrir þeim afrekum. En hvernig leikmaður var Heimir?

Það var eflaust frekar auðvelt að leikgreina mig. Ég var ekki teknískur, ekki hraður en ég las leikinn ágætlega og var þokkalega harður. Þannig að ég hafði ekki mikið fram að færa sem leikmaður enda var ég í ÍBV þegar gekk sem verst hjá liðinu. Ef að liðið hefði verið betra þá hefði ég eflaust ekki spilað svona marga leiki, segir Heimir hógværðin uppmáluð.

Vill sjá fleiri unga leikmenn í Pepsi-deildinni

Heimir segir að íslenski boltinn hafi breyst nokkuð síðan hann sópaði upp í vörninni fyrir ÍBV.

Hann fylgdist vel með Pepsi-deildinni í sumar og leist vel á en er svekktur yfir hversu fáir ungir leikmenn spila reglulega í deildinni.

Í mörgum tilfellum held ég að ungir leikmenn hafi gott af því að spila leiki í meistaraflokki og vera þá mögulega keyptir út sem meistaraflokksleikmenn. Ef þeir eru keyptir sem unglingaflokksleikmenn, eins og gjarnan gerist, þá lenda þeir oft í stórum hópum efnilegra ungra leikmanna í viðkomandi liði sem erfitt er að vinna sig upp úr. Við tókum saman tölfræði um þetta atriði og ég held að um helmingur þeirra leikmanna sem fara erlendis sem unglingar komi aftur til íslenskra félagsliða. Ég myndi því vilja sjá unga og efnilega leikmenn spila lengur hérna heima en þá verða íslensku liðin auðvitað að gefa þeim tækifæri til þess.

Metnaðarfullur þjálfari frá upphafi

Sem fyrr segir byrjaði Heimir strax 17 ára gamall að þjálfa börn og unglinga í Eyjum en síðar stýrði hann meistaraflokki ÍBV, bæði í karla- og kvennaflokki. Það orð fór snemma af honum, eins og í dag, að hann væri mjög skipulagður, metnaðarfullur og nákvæmur þjálfari.

Ég hef alltaf verið rosalega metnaðarfullur í því sem ég er að gera, ég þoli ekki hálfkláruð verk og þoli ekki endurtekningar. Ég var snemma byrjaður að vídeo-leikgreina, áður en öll þessi klippiforrit í tölvum voru komin. Mér fannst gaman að geta sagt leikmönnum hvað ég sá athugavert í þeirra leik og geta þá sýnt þeim það líka. Svo er það bara þannig að þegar þú kemur frá litlu liði á Íslandi þá þarftu að leggja mikið á þig sjálfur sem þjálfari. Ég hef alltaf gert það.

Sem gott dæmi um þennan mikla metnað er þegar Heimir og Íris konan hans þjálfuðu saman 6. flokk ÍBV.

Þá létum við helminginn af æfingatímanum fara í tækniæfingar og bjuggum til myndband af æfingunum. Mér skilst að strákarnir séu ennþá að horfa á það, nú orðnir yfir 20 ára gamlir. Í lok sumarsins buðum við foreldrum strákanna í bíó til að sjá afraksturinn. Við lögðum gríðarlega vinnu og metnað í hvaða verkefni sem var á þessum tíma og ég hef haldið því áfram síðan.

Heimir þjálfaði ÍBV til ársins 2011 en ári síðar var hann ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins en það er lýsandi fyrir metnað Heimis að hann leit aldrei á þá ráðningu sem endastöð.

Það var alltaf í huga mínum að ég ætlaði að taka við landsliðinu sem aðalþjálfari eða nota þetta starf í eitthvað ennþá stærra. Ég stefndi ekki að því að verða besti aðstoðarþjálfari í heimi.

Lars var akkúrat rétti gæinn

Það er óþarfi að fjölyrða um árangur landsliðsins síðustu árin, hann hefur verið súrrealískur. Það er hins vegar svo margt fleira sem hefur breyst í tengslum við landsliðið, bæði er öll umgjörð orðin mun faglegri og nálgun leikmanna mun heilbrigðari. Þessi umbylting hefur tekið ótrúlega skamman tíma því um það leyti sem Heimir byrjaði var ýmislegt bilað hjá KSÍ.

Ég kom til KSÍ frá ÍBV og mér fannst í fyrstu ekki vera mikill munur á stjórnun hjá sambandinu og ÍBV. Mér blöskraði margt, til dæmis þótti mér samskiptin við fjölmiðla í ólestri. Ég tók að mér að reyna að breyta því þannig að við gæfum meira af okkur til fjölmiðla og stuðningsmanna. Það er svo mikilvægt að segja öllum, stuðningsmönnum og blaðamönnum, hvað við erum að fara að reyna að gera. Þegar þú segir frá því hvað þú ert að reyna að gera þá ertu dæmdur útfrá því en ekki útfrá því hvað einhver annar vill að þú gerir. Þetta gildir líka varðandi stuðningsmenn liðsins, á þessum tíma var varla til nokkur stuðningsmannaklúbbur svo að við ákváðum að reyna að ýta undir hann og gera það sama gagnvart stuðningsmönnum, að gefa þeim eins miklar upplýsingar um liðið og hægt er.

Heimir nefnir einnig að umhverfið og umræðan í kringum landsliðið hafi verið sérlega neikvæð á þeim tíma sem hann hóf störf.

Nánast allar fréttir um liðið voru neikvæðar, hvort sem þær vörðuðu agamál, árangur liðsins, hvað menn sögðu og hvernig menn höguðu sér. Á þessum tíma virtist það ekki vera stökkpallur að taka við þjálfun landsliðsins því þjálfarar á undan okkur fengu yfirleitt ekki betri störf eftir að þeir hættu sem landsliðsþjálfarar. Það mætti telja upp ansi marga sem hreinlega gufuðu upp eftir starfið eða komu laskaðir út úr því. Það var ekki af því að þeir voru orðnir verri þjálfarar en þeir voru þegar þeir voru ráðnir heldur var það umhverfið og kúltúrinn sem hafði þessi áhrif.

Heimir segir að ráðning Lars Lagerback hafi verið vendipunkturinn hvað varðaði aukna fagmennsku hjá KSÍ.

Það góða við að fá Lars í starfið var að hann var vanur ákveðinni fagmennsku og hún kom með honum inn í knattspyrnusambandið. Hann var akkúrat rétti gæinn, því það hefði líka verið hægt að fá einhvern annan frægan útlending sem hefði fljótlega orðið brjálaður út í allt og alla. Lars var hins vegar frá upphafi kurteis og rólegur og allar þessar jákvæðu breytingar á kúltúrnum síuðust inn hægt og bítandi. Ég held að menn sjái að aginn, bæði innan vallar og utan, hefur breyst til hins betra og ég held að leikmönnum á endanum líði miklu betur í skipulögðu og öguðu umhverfi. Atvinnumaðurinn í dag verður að hafa svoleiðis umhverfi. 

Agaðri leikmenn í dag

Það er þekkt að í gegnum tíðina hafa knattspyrnumenn, líka landsliðsmenn, verið gjarnir á að njóta lífsins óhóflega, til dæmis hvað varðar áfengis- og tóbaksneyslu, mataræði, svefnvenjur og annað. Það virðist sem það sé lítið vandamál hjá íslenska liðinu í dag og Heimir staðfestir það.

Leikmenn í dag eru miklu agaðri en áður. Ég er ekki í neinum vafa um það að kúltúrinn hjá félögunum sem leikmennirnir koma frá hefur lagast, og kúltúr í fótbolta almennt. Ég held að þekkingin um það hvað fær mann til að standa sig vel hafi aukist svo mikið, menn eru meðvitaðri um það í dag að óregla getur ekki gengið til lengdar. Það breytir því þó ekki að það getur tekið langan tíma að búa til agað umhverfi í tilteknum liðum. Nú erum við komnir með kúltúr sem okkur finnst frábær enda hefur það sýnt sig að hann skilar miklum árangri. Svo skiptir líka máli að þegar við veljum í landsliðið þá horfum við sérstaklega á karakter og hugarfar leikmanna. Það ræður oft þó nokkru um hvernig hópurinn er skipaður hverju sinni. Það skiptir því ekki öllu máli að skoða hvort að leikmenn sé að blómstra með sínum félagsliðum heldur metum við líka hvað þeir leggja til hópsins utan vallar.

Síðastliðið vor fjölluðu fjölmiðlar töluvert um meint agabrot framherjans Viðars Arnar Kjartanssonar og gengu blaðamenn á köflum nokkuð hart fram við að fá nánari upplýsingar um það mál frá Heimi. Við vildum fá Heimi til að setja lok ofan á það mál.

Þetta var í raun aldrei agabrot en þetta var ekki „professional“. Það eru engar reglur um þetta hjá okkur, það er ekki þannig að ef þú færð þér áfengi þá ertu rekinn. Slík mál eru bara tekin og rædd hver fyrir sig. En þetta var bara þannig að hann gerði eitthvað eftir leik, sem ég veit ekki hvort var vanalegt eða óvanalegt, en það hins vegar sást. Hann var auðvitað miður sín og baðst afsökunar. Það gera allir mistök. Við nýttum þetta atvik til þess að læra af því, bæði við og hann. En atvikið auðvitað hjálpaði honum ekki.

Stefnan alltaf sú að taka einn við liðinu

Samningur Heimis við KSÍ var á þá leið að hann og Lars skyldu þjálfa liðið saman fram yfir lokamót EM en að þaðan í frá myndi Heimir stjórna liðinu einn. Í lok árs 2015 bárust hins vegar fréttir um að KSÍ hefði farið þess á leit við Lars að hann héldi áfram fram til ársins 2018. Það kom Heimi óþægilega á óvart.

Ég hefði líklega ekki farið aftur með Lars fyrir undankeppni EM árið 2014 nema vegna þess ákvæðis í samningnum mínum um að ég tæki svo einn við liðinu eftir að mótinu lyki. Að KSÍ skyldi hefja viðræður við Lars um framhald fram yfir EM var því í raun brot á samningi mínum af hálfu KSÍ, því ef þeir semdu við Lars væri minn samningur orðinn marklaus.

Fannst þér KSÍ fara á bakvið þig með þessu?

Já mér fannst það, auðvitað átti formaðurinn að tala við mig fyrst og bjóða mér breytingu á mínum samningi eða eitthvað annað þess háttar. Og ég er ekkert svo viss um að ég hefði verið ánægður í starfi ef ég hefði verið aftur í sömu sporum, ég er bara það metnaðarfullur. Ég var aðstoðarþjálfari í tvö ár, var meðþjálfari í tvö ár og það var markmiðið að vera svo einn þjálfari þar á eftir. Ég veit ekki hvort ég hefði haldið áfram ef KSÍ hefði samið við Lars um að vera lengur. Ekki það að ég hafi ekki viljað vinna með Lars, heldur var það einfaldlega metnaður minn að taka við liðinu einn og mér fannst ég vera tilbúinn til þess.

Vildi Eið Smára sem aðstoðarþjálfara

Heimir var svo sannarlega tilbúinn að stjórna liðinu einn eins og hinn magnaði árangur liðsins í undankeppni HM sannar. Hann þurfti þó að finna með sér aðstoðarþjálfara og fyrir valinu varð Helgi Kolviðsson sem hefur reynst afar vel. Áður hafði Heimir þó leitað til Eiðs Smára Guðjohnsen um að taka aðstoðarþjálfarastöðuna að sér.

Ég held að hann hefði getið hjálpað mér á mörgum sviðum, til dæmis varðandi virðingu, samskipti við fjölmiðla og annað slíkt, eins og hann gerði beint og óbeint hjá okkur sem leikmaður á EM í fyrra. Svo hefði hann auðvitað haft mikla þekkingu á hópnum og virðingu innan hans. En hann ákvað að spila áfram og það var hans val.

Fullkomin liðsheild

Sparkspekingar og áhugamenn um uppgang íslenska liðsins hafa lengi velt vöngum yfir því hver sé galdurinn á bakvið velgengnina, af hverju liðið sé svona gott. Það eru auðvitað ýmsir þættir sem skipta máli en það er ljóst að í huga Heimis er það liðsheildin sem hefur fyrst og fremst skapað þennan árangur.

Ef við skoðum klassísk hugtök í fótbolta, eins og vinnusemi, dugnað og liðsheild, þá eru allir þjálfarar í heiminum að leita að leikmanni sem gefur allt fyrir liðið, sem fórnar sér og er ánægður þegar leikmaðurinn við hliðina á honum fær sviðsljósið. Svona leikmenn dreyma allir þjálfarar um að hafa í sínu liði. Þjálfarar leita jafnvel bara að einum svona leikmanni í sitt lið. Við erum svo heppin að við eigum fullt af svona leikmönnum, nánast hver einasti maður í liðinu. Þess vegna er þetta lið svona gott. Það er enginn að keppast um persónulega frægð í þessu liði. Sjáum til dæmis Gylfa Sigurðsson, sem er líklega þekktasti leikmaður liðsins úti í heimi, með hæstu launin og mestu umfjöllunina. Hann er duglegasti leikmaðurinn á vellinum. Ef hann er duglegastur, hver getur þá leyft sér að vera latur? Annað gott dæmi er Eiður Smári. Hann var með okkur úti í Frakklandi en spilaði mjög lítið, maður með ótrúlegan feril og afrek að baki. Hann kvartaði ekki yfir að spila lítið heldur þvert á móti lagði hann sitt af mörkum við að aðstoða liðið og leikmennina á EM. Ef maður af hans kaliberi kvartar ekki yfir að fá lítinn spiltíma með landsliðinu, hver hefur þá efni á því að vera ósáttur? Það eru svona hlutir sem skipta svo miklu máli fyrir liðsheildina. 

Besta þjálfarastarf í heimi

Flestir áhugamenn um íslenskan fótbolta eru líklegast enn í losti yfir því að Íslandi hafi tekist það sem fæstir trúðu að gæti nokkru sinni gerst. Heimir er þjálfari liðsins sem lét þennan draum rætast og þessi magnaði árangur ætti að geta opnað einhverjar dyr að starfi fyrir Heimi á enn stærra sviði erlendis. Kannski er sigurvíman ekki runnin af honum en það er á honum að heyra að það kunni að vera að draumur hafi ræst, en hann ætlar sér hins vegar ekkert að staldra við heldur ætlar hann að lifa drauminn og njóta hans áfram.

Þegar þú ert með lið eins og íslenska landsliðið í höndunum þá er bara ekkert annað sem er meira spennandi. Ég tala nú ekki um með svona hóp af leikmönnum sem eiga eftir að bæta sig enn meira, með stuðningsmenn sem elska liðið, með fjölmiðla sem bera virðingu fyrir okkur, með þetta starfslið í kringum mig sem er tilbúið að gefa allt, hvaða þjálfarastarf er þá betra í heiminum? Þetta er bara besta þjálfarastarf í heimi.

Íris veit um hvað þetta snýst

Heimir getur þess sérstaklega að án stuðnings fjölskyldunnar væri ómögulegt að standa í þessu. Íris kona hans lék sjálf lengi fótbolta með góðum árangri og þekkir þjálfun vel. Þá þekkir hún Heimi vel sem þjálfara, bæði þjálfaði hún með honum en hann þjálfaði hana einnig sem leikmann til margra ára. Heimir segir að það hafi ekki verið vandamál.

Ég öskraði á hana á æfingum og svo snerist það við þegar við komum heim, segir Heimir hlæjandi.

Ég hef verið ákaflega heppinn, Íris veit út á hvað þetta gengur. Hún kemur á alla landsleiki, líka úti, og er mikið með okkur. Hún skilur þetta, hún er ekki pirruð, hún veit að þetta kostar mikla fjarveru. Það er svo mikilvægt að eiga fjölskyldu sem skilur starfið og sættir sig við að maður komi svona endrum og sinnum heim til sín. Það er algjörlega ómetanlegt og er í raun stór þáttur í því að þetta er hægt.

Það er augljóslega mikið að gera hjá Heimi og lítill tími aflögu fyrir áhugamál eða slökun. Hann segist þó ná að slaka á í tannlækningunum. Stundum þegar mér finnst að ég þurfi að slíta mig frá fótboltanum, þá tek ég tvo eða þrjá daga í vinnu á tannlæknastofunni og næ að hreinsa hugann. Við spyrjum Heimi hvort að það gangi nokkuð, hvort að kúnnarnir spyrji hann ekki látlaust um landsliðið á meðan hann grúskar í gómum. Jújú, en þá deyfi ég þá bara, segir hann og hlær.

Eyjarnar eru orkustöðin

Það hefur loðað við margan Eyjamanninn að hann iði allur í skinninu að komast aftur heim þegar hann þarf að yfirgefa eyjarnar fögru. Það á við um Heimi. Ég bíð eftir því að komast heim, ég bíð eftir því. Til dæmis nákvæmlega núna er áreitið mikið í Reykjavík, fólk úti á götu vill fá að taka selfie-myndir með mér, en heima í Eyjum þá er ég bara sami vitleysingurinn og ég var fyrir 15 árum. Það er svo geggjað, þar er ég bara ég, og allir þekkja mig og vita fyrir hvað ég stend. Þar lít ég við á sömu kaffistofurnar og áður og renni yfir það helsta með gárungunum. Það er frábært að eiga svona orkustöð eins og Vestmannaeyjar eru.

Það eru fín lokaorð, við byrjuðum viðtalið í Eyjum og endum það í Eyjum, hringnum er lokað. Það á þó bara við um þetta viðtal, því miðað við hvernig Heimir talar, þá er hann rétt að byrja.

Viðtalið birtist áður í Helgarblaði DV

Facebook Comments Box