Hvað er afreksmaður í íþróttum?

Samkvæmt skilgreiningu ÍSÍ segir að hver sá íþróttamaður sem stenst ákveðna viðmiðun við heimsafrekaskrá í viðkomandi grein sé afreksmaður. Um framúrskarandi íþróttamann er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum. Afreksstefna ÍSÍ kemur einnig inn á það að afreksefni teljist þeir íþróttamenn sem ekki hafa náð jafn langt en taldir geta skipað sér á bekk með þeim bestu með markvissri og mikilli þjálfun í átt að afreksmennsku. Knattspyrnusamband Íslands hefur ekki skilgreint hvað þýðir að vera afreksmaður í knattspyrnu líkt og ÍSÍ hefur lagt upp með.

Út frá þessu er hægt að álykta aðafreksmaður í knattspyrnu á Íslandi sé sá sem hefur hæfileika til að spila á efsta getustigi á Íslandi og á góðan möguleika á bæði landsliðssæti og því að verða atvinnumaður í grein sinni. Verðandi afreksmenn er því hægt að skilgreina sem 16-19 ára leikmenn sem eiga sæti í eða hafa verið viðloðandi unglingalandslið og búa yfir þeim eiginleikum sem viðmælendur hafa farið yfir.

Hvaða eiginleikum þurfa afreksmenn í knattspyrnu að búa yfir?

Það er ekki einfalt að skilgreina einkenni afreksmanns í knattspyrnu svo margir eru þeir þættir sem knattspyrnufólk verður að hafa. Fólk hefur mismunandi hæfileika frá náttúrunnar hendi, á meðan sumir hafa meðfædda tæknilega og taktíska hæfileika þá eru aðrir sem hafa það ekki en hafa á móti óbilandi baráttugleði og metnað. Þar sem knattspyrna er margslunginn leikur þar sem ellefu leikmenn skipa liðið segir það sig sjálft að hlutverkin eru mörg og mismunandi. Það hefur sýnt sig að til er afreksfólk sem hefur ekkert séstaka tæknigetu en á móti kemur þá frábært líkamlegt ástand sem og andlegt. Einnig eru til menn með frábæra tæknihæfileika sem gætu hins vegar sýnt betra hugarfar og lagt meira í líkamsþjálfun sína.

Þrátt fyrir þetta eru nokkrir eiginleikar sem eru einnig mikilvægir og flestir afreksmenn eiga sameiginlega og eru algjörlega nauðsynlegir fyrir alla afreksmenn að búa yfir.

Í dag skiptir mestu máli að afreksfólk hafi gott hugarfar, kunni að hvíla sig og geti slitið sig frá því áreiti sem fylgir nútíma lífi og einbeitt sér að íþróttinni. Afreksmaður í dag verður að hafa hraða bæði líkamlegan sem og hraða hugsun.

Það er mikilvægt að vera alhliða vel þjálfaður, bæði til að ráða við líkamlegar kröfur leiksins og til að viðhalda tæknilegri getu allan leiktímann.

Grunnur mikillar getu í knattspyrnu er ekki einungis bundin markvissri boltaþjálfun á æfingasvæðinu heldur þarf líkamleg og andleg þjálfun einnig að vera viðamikil í alhliða þjálfun knattspyrnufólks.

Eins og hægt er að sjá á skilgreiningum þessara manna þá verða líkamlegir og andlegir þættir að vera til staðar. Hugarfar knattspyrnufólks verður að vera rétt og það verður að innleiða jákvæða lífsstílsþætti er snúa aðmataræði, hvíldinni, fórninni og skuldbindingunni svo eitthvað sé nefnt.

Greinin birtist fyrst á ksi.is

Facebook Comments